Fleiri en þúsund nýjar vörur hafa verið frum­sýndar á Hainan Expo 2023 sýningunni sem fer nú fram í Kína. Rúm­lega 3.100 vöru­merki frá 60 mis­munandi löndum eru einnig til sýnis á þessari ráð­stefnu sem er, að sögn stjórn­enda, 20% stærri en sú sem var haldin í fyrra.


Kín­verska neyslu­vöru­sýningin Hainan Expo 2023 fer nú fram í þriðja sinn dagana 11-15. apríl í borginni Hai­kou á Hainan-eyju í suður­hluta Kína. Eyjan er vinsæll áfangastaður fyrir ferðamann og er stundum kölluð "Hawaii Kína". Sýningin er ein af fjórum stórum við­skipta­ráð­stefnum sem Kín­verjar halda og er fyrsta sinnar tegundar sem fer fram ár­lega á Kyrra­hafs­svæðinu.

Þema sýningarinnar í ár er „Deilum tæki­færum til að skapa betra líf“ og er mikið ein­blínt á há­gæða vörur frá fram­leið­endum á borð við HUGO BOSS, Volkswa­gen og Karchar. Fram­leið­endur frá Frakk­landi, Þýska­landi, Banda­ríkjum og öðrum löndum hafa sent full­trúa á sýninguna en það eru Ítalir sem fá titilinn sem heiðurs­gestir í ár.

Inn­lendir kín­verskir fram­leið­endur á borð við Huawei, Made in Jing­dez­hen og Poly Culture Group eru einnig við­staddir og binda vonir um að geta aug­lýst há­gæða kín­verskar vörur á er­lendum mörkuðum. Poly Culture Group sýnir meðal annars há­gæða kín­verska minja­gripi sem hafa verið sendir aftur til Kína og hyggst fyrir­tækið aug­lýsa Hainan sem mögu­legan á­fanga­stað fyrir slíka starf­semi í fram­tíðinni.