Erlendir fjölmiðlar greina frá því að Haraldur Ingi Þorleifssyni hafi verið meðal þeirra sem sagt var upp hjá Twitter um helgina. Alls var um 200 manns sagt upp hjá Twitter sem sagt er liður í nýjustu hagræðingaraðgerðum sem staðið hafa yfir frá kaupum Elon Musk á Twitter í október.
Haraldur seldi stafrænt hönnunarfyrirtæki sitt Ueno til Twitter í ársbyrjun 2021 og hóf í kjölfarið störf hjá Twitter sem opnaði skrifstofu hér á landi fyrir Harald.
Í færslu á Twitter sem hann setti inn í gær þakkaði Haraldur fyrir síðustu tvö ár. Hann hafi lært margt, eignast góða vini og sjái ekki eftir neinu.
Two years.
— Halli (@iamharaldur) February 26, 2023
Learned some things. Met some great new friends. Did some good work.
Laughed a lot. Cried a little.
No regrets.
🫡
New York Times segir í umfjöllun sinni að það verði kostnaðarsamt að segja upp Haraldi og öðrum stofnendum fyrirtækja sem Twitter hafi keypt á síðustu árum. Þeir hafi verið á háum launum og gera þurfi upp kaupauka- og kaupréttarsamninga að hlutabréfum við uppsögn þeirra.
Twitter á Íslandi greiddi Haraldi 1,1 milljarð króna í laun og launatengd gjöld árið 2021 líkt og Viðskiptablaðið sagði frá fyrir ári. Haraldur sagði þá að hann hafi viljað að sem stærstur hluti kaupverðsins rynni til íslenska ríkisins í formi skatta.
Haraldur sagði jafnframt frá því á Twitter í apríl að honum líkaði illa við Musk jafnvel þó hann væri að gera hann enn ríkari, en hlutabréfaverð Twitter hækkaði nokkuð þegar greint var frá áhuga Musk á félaginu.
Því má áætla að kostnaður Twitter við starfslok Haraldar sé umtalsverður og hlaupi jafnvel á milljörðum króna.
Áætla má að um helmingur launa og launatengda gjalda Haraldar frá Twitter hafi runnið í ríkissjóð. Haraldur sagði hafa vonast eftir því að verða skattakóngur á Íslandi en hann greiddi næst hæstu skatta allra vegna tekna ársins 2021.
New York Times bendir einnig á að starfsmönnum Twitter hafi fækkað um yfir fimm þúsund frá kaupum Musk eða úr um 7.500 í um 2.00.
Ueno ehf., félag Haraldar, hagnaðist um 730 milljónir króna árið 2020 vegna sölunnar til Twitter þar sem bókfært virði Ueno LLC í Bandaríkjunum var 1,4 milljarðar króna.
Haraldur hefur síðan verið áberandi þegar kemur góðgerðarmálum hér á landi og meðal annars staðið að bak við verkefnið Römpum upp Ísland. Auk þess vinnur hann að opnun kaffihúss í miðbænum og uppbyggingu listaseturs á Kjalarnesi.