Kínverska eignastýringafyrirtækið Zhongzhi Enterprise Group hefur tjáð hluthöfum sínum að það sé „verulega ógjaldfært (e. severely insolvent)“ og horfi fram á allt að 36,4 milljarða dala gjaldþrot. Financial Times greinir frá.
Zhongzhi upplýsti hluthafa sína að heildareignir fyrirtækisins hljóði upp á 200 milljarða kínversk júan, eða um 28 milljarða dala en heildarskuldir samstæðunnar séu á bilinu 420-460 milljarðar júan.
Zhongzhi rekur erfiða stöðu sína til brotthvarfs nokkurra af æðstu stjórnendum og lykilstarfsmönnum fyrirtækisins ásamt andláti stofnandans Xie Zhikun árið 2021 en hann er sagður hafa spilað stórt hlutverk við ákvörðunartöku og stefnumótun innan samstæðunnar.
Í bréfinu segir að í kjölfarið hafi „innri stjórnendateymi leikið lausum hala“.
„Fjárfestingarvörur samstæðunnar hafa orðið greiðsluþrota hver eftir annarri og við biðjum hluthafa innilegrar afsökunar.“
Í umfjöllun FT segir að yfirvofandi gjaldþrot Zhongzhi varpi ljósi á skuldavandræði í hinum nærri 3 þúsund milljarða dala kínverska skuggafjármálamarkaði og hversu útsettur hann er fyrir krefjandi aðstæðum á fasteignamarkaðnum í landinu.
Haft er eftir greinanda á skuldabréfamarkaði að fyrirséð gjaldþrot Zhongzhi sé nokkuð stórt eitt og sér en ekki mjög stórt ef horft er á kínverska eigna- og sjóðastýringageirann í heild sinni.