Hampiðjan hefur skrifað undir kaupsamning við eigendur Mørenot A/S um kaup Hampiðjunnar á öllu hlutafé norska félagsins. Stór hluti kaupverðsins verður greiddur með 50,98 milljónum hlutum í Hampiðjunni sem fyrirhugað er að verði gefnir út samhliða kaupunum. Seljendurnir munu eiga 9,4% af heildarhlutafé Hampiðjunnar að loknum viðskiptunum.

Í kjölfar undirritunar kaupsamnings verður stefnt að því að því að hlutabréf Hampiðjunnar, sem nú eru skráð á First North-markaðnum, verði tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar á næsta ári. Kaupsamningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki Samkeppniseftirlita Íslands, Grænlands og Færeyja ásamt samþykki hluthafa Hampiðjunnar.

„Gert er ráð fyrir því að við skráningu á aðalmarkað verði hlutafé aukið og skuldir Mørenot endurskipulagðar ásamt því að fjármagn verði sótt til aukinna fjárfestinga í framleiðslustarfsemi Hampiðjunnar í Litháen. Þannig getur félagið sótt enn frekari samlegð með sölu á vörum innan samstæðunnar,“ segir í tilkynningu Hampiðjunnar til Kauphallarinnar.

Rekstrarvirði Mørenot 15,7 milljarðar

Seljendur munu fá afhenta 50.981.049 hluti í Hampiðjunni og er miðað við gengið 112 krónur á hlut í þeim útreikningi, en það er 20,4 % hærra en gengi hlutabréfanna við lokun markaða í gær. Auk þess verða 14 milljónir norskra króna eða um 200 milljónir íslenskra króna greiddar með handbæru fé.

Nettó vaxtaberandi skuldir Mørenot nema um 694,4 milljónum norskra króna eða um 9,9 milljörðum íslenskra króna. Sé miðað við að gengi hlutabréfa Hampiðjunnar í viðskiptunum sé 112 nemur rekstrarvirði Mørenot um 1.100 milljónum norskra króna eða um 15,7 milljörðum íslenskra króna. Það samsvari 8,9 EV/EBITDA 2021 margfaldara, án tillits til væntanlegra samlegðaráhrifa, miðað við IFRS EBITDA.

Veltu 19 milljörðum í fyrra

Mørenot er alþjóðlegt fyrirtæki með starfsstöðvar á um 30 stöðum víðs vegar um heiminn. Félagið veitir þjónustu og selur vörur til fyrirtækja í sjávarútvegi, fiskeldi og olíuiðnaði.

Norska félagið velti 129 milljónum evra í fyrra eða sem nemur 19,2 milljörðum króna miðað við gengi dagsins. EBITDA-hagnaður Mørenot nam 10 milljónum evra eða um 1,5 milljörðum íslenskra króna.

Heildareignir Mørenot námu um 181 milljónum evra eða um 27 milljörðum íslenskra króna í árslok 2021 aðlagað að IFRS. Eigið fé félagsins nam um 58,6 milljónum evra eða 8,7 milljörðum króna miðað við núverandi gengi íslensku krónunnar.

„Mørenot og Hampiðjan eru að mörgu leyti lík félög því bæði félögin framleiða, selja og þjónusta veiðarfæri og búnað til fiskeldis ásamt því að framleiða ofurtóg fyrir olíuiðnað og uppsetningar á vindmyllum á hafi úti. Vöruúrvalið er þó mismunandi og bæta félögin hvort annað upp á mörgum sviðum.

Þannig er Mørenot afar sterkt á fiskilínumarkaði með eigin framleiðslu á vönduðum línum og önglum í Dalían í Kína. Þar er til staðar öflug framleiðslueining fyrir ýmsa framleiðslu fyrir utan línubúnað og meðal annarra framleiðsluvara eru kaðlar og stærri gildrur fyrir krabbaveiðar.“

Starfsmannafjöldi Hampiðjunnar er í dag um um 1.250 en 750 hjá Mørenot sem leiðir til þess að samanlagður starfsmannafjöldi verður um 2.000 manns í 18 löndum.

Hjörtur Erlendsson, forstjóri Hampiðjunnar:

„Mørenot er félag sem við höfum lengi litið á sem heppilega viðbót við samstæðu Hampiðjunnar. Landfræðileg dreifing og vöruúrval félaganna fara afskaplega vel saman og koma þau til með að styrkja hvort annað verulega á ýmsum sviðum.

Miklir möguleikar felast í að ná fram samlegðaráhrifum með hagræðingu og samþættingu, ásamt því að auka vörusölu á þeim svæðum sem fyrirtækin, hvort um sig, hafa ekki haft góðan aðgang að. Það gildir einu hvort horft er á veiðarfæri, fiskeldisvörur og þjónustu við fiskeldið eða hátæknitóg fyrir olíuiðnað því það sama á við öll þessi svið hvað tækifæri framtíðarinnar varðar.

Hampiðjan hefur verið leiðandi á veiðarfæramarkaði á heimsvísu og félagið talið það stærsta á heimsvísu innan þess geira. Með kaupunum styrkist sú staða umtalsvert og gefur okkur tækifæri til að enn frekari vaxtar.

Við fögnum því að fá eigendur Mørenot inn í hluthafahóp okkar og að fá tækifæri til að fjölga hluthöfum enn frekar þegar við færum fyrirtækið af First North yfir á aðalmarkað Nasdaq á Íslandi.“

Espen Asheim, stjórnarformaður Mørenot:

„Á síðustu árum höfum við séð skýra þróun í átt að aukinni sérhæfingu, áherslu á stærðarhagkvæmni, sjálfbærni og stafrænni starfsvettvangi. Mørenot hefur því unnið ötullega að því að auka framleiðni og styrkja innviði samhliða því að taka þátt í umræðum um aukin samlegðaráhrif á þessum mörkuðum. Sameining þessara tveggja fyrirtækja er mjög stórt skref í þessa átt og við hefðum ekki getað hugsað okkur betra samstarf. Við erum spennt að taka þátt í þessari sameiginlegu vegferð.”

Ráðgjafar Hampiðjunnar í viðskiptunum eru SEB, lögfræðistofan Thommessen og Deloitte í Noregi og á Íslandi eru ráðgjafar félagsins Arion banki og Logos.

Ráðgjafar FSN Capital eru lögfræðistofan Haavind og PwC í Noregi og BBA Fjeldco á Íslandi.