Við höfum verið að byggja upp Alvotech í tíu ár og þetta er einn af stóru áföngunum í sögu félagsins. Þetta er búið að vera risastór dagur,“ segir Róbert Wessman, stofnandi og stjórnarformaður Alvotech sem var skráð í Nasdaq kauphöllina í New York í dag í kjölfar samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II („OACB“).

Þrátt fyrir ólgusjó á hlutabréfamörkuðum víða um heim kom ekki til tals að fresta skráningunni að sögn Róberts. Hlutabréf félagsins hafa hækkað um tæplega fjórðung í viðskiptum dagsins. Stefnt er að því að tvískrá bréf Alvotech á íslenska First North-markaðinn á fimmtudaginn næsta, 23. júní.

Sjá einnig: Vill veita Íslendingum gott aðgengi

„Við erum búin að vera undirbúa skráninguna frá því á síðasta ári. Til skamms tíma eru markaðirnir auðvitað annað hvort upp eða niður. Til lengri tíma höfum við hins vegar mikla trú á Alvotech og okkar viðskiptamódeli.“

Alvotech var skráð á markað í gegnum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið, (e. SPAC) OACB. Þessi leið til að fara á markað hefur rutt sér til rúms á síðustu tveimur árum en slíkum samningum hefur þó fækkað verulega í ár.

„Við völdum SPAC einfaldlega vegna þess að það gaf okkur aðeins meiri sveigjanleika. Við náðum inn 175 milljónum dala í nýtt hlutafé í gegnum PIPE-fjármögnun. Það skipti sköpum fyrir okkur, bæði upp á að tryggja fjármögnun og líka hreinlega til að fá staðfestingu á verðmæti félagsins. Það er ólíkt stöðunni hjá sumum SPAC-félögum sem eru að fara á markað núna. Þeim hefur gengið illa að ná í nýtt hlutafé í gegnum PIPE,“ segir Róbert. PIPE-fjármögnun er bein hlutafjáraukning í lokuðu útboði sem oft er ráðist í samhliða Spac-samruna.

Spurður nánar út í hversu lengi núverandi fjármögnun dugir Alvotech þá bendir Róbert á að auk framangreindrar PIPE-fjármögnunar hafi félagið nýlega gert samning við Yorkville Advisors Global sem felur í sér að loforð um útgáfu hlutafjár fyrir allt að 150 milljónir dala. Þá sé félagið einnig á lokastigum með að klára samninga um lánalínur.

„Ég get alveg staðfest að félagið er fullfjármagnað þangað til að við förum að skila jákvæðum hagnaði á miðju næsta ári.“

Frá Times Square í dag.

Þróað hliðstæðu eins tekjuhæsta lyfs heims

Alvotech stefnir á að verða leiðandi fyrirtæki í heiminum í líftæknihliðstæðulyfjum og vinnur að þróun og framleiðslu sjö líftæknilyfja. Róbert segir að stóra verkefnið hjá félaginu um þessar mundir sé að koma líftæknilyfinu AVT02 (adalimumab), hliðstæðu gigtarlyfsins Humira, á markað. Á síðasta ári var Humira tekjuhæsta lyf heims að undanskildum bóluefnum gegn Covid-19. Alvotech er nú að setja lyfið á markað í Kanada og Evrópu.

Sjá einnig: Virði Alvotech allt að fjórfaldist á 3 árum

„En Bandaríkin er náttúrulega stóri markaðurinn,“ segir Róbert. Í mars náði Alvotech samkomulagi við lyfjafyrirtækið Abbvie, sem hefur verið eitt um sölu Humira, um almennan rétt til alþjóðlegrar markaðssetningar AVT02. Með samkomulaginu fær Alvotech rétt til að markaðssetja fyrsta hliðstæðulyf sitt í Bandaríkjunum frá og með 1. júlí 2023.

Byggt upp nýja atvinnugrein á Íslandi

Alvotech er í dag með um 800 starfsmenn, þar starfa um 600 starfsmenn á Íslandi. Róbert segir að hjartað og kjarninn í þróuninni, framleiðslunni og rekstrinum verði áfram á Íslandi.

„Þetta er búið að vera skemmtilegur tími hvað uppbygginguna á Íslandi varðar. Ekki bara að byggja upp nýtt félag heldur í raun og veru að byggja upp nýja atvinnugrein á Íslandi. Auðvitað þurftum við að fá inn erlenda starfsmenn og stjórnendur til að byrja með, til að ná þekkingunni til landsins. En Íslendingarnir í kringum verkefnið eru búnir að læra mikið á þessum tíu árum. Það er mjög gaman að sjá bæði Alvotech og vonandi þessa atvinnugrein vaxa og dafna svona til lengri tíma.“