Bandaríska fjártæknifyrirtækið Better.com er í miklum öldudal. Yfir helmingi starfsmanna félagsins hefur verið sagt á fimm mánuðum, yfir fimm þúsund manns. Stefnt hefur verið að skráningu félagsins á markað í Bandaríkjunum gegnum samruna við sérhæfða yfirtökufélagið Aurora Acquisition Corp. sem Novator, fjárfestingafélag Björgólfs Thors Björgólfssonar, leiðir. Þá er Sigurgeir Jónsson, frændi Björgólfs, einn stofnenda Better og yfirmaður fjármálamarkaða hjá fyrirtækinu.

Zoom uppsagnir vöktu heimsathygli Vishal Garg, forstjóri Better, vakti heimsathygli í desember þegar hann sagði upp 900 af þá um tíu þúsund starfsmönnum Better á Zoom fundi og húðskammaði starfsfólk sitt um leið og sakaði um leti. Í kjölfarið greindu fjölmiðlar frá kvörtunum fjölda starfsmanna fyrirtækisins yfir harðneskjulegum stjórnunarháttum Garg sem endaði að biðjast afsökunar á framkomu sinni og fór í stutt leyfi frá störfum.

Sjá einnig: Yfir 900 sagt upp fyrir Novator samruna

Garg sagði á starfsmannafundi í kjölfar uppsagnanna að að hann hefði sjálfur gert ýmis mistök og að líkindum kostað fyrirtækið um 200 milljónir dollara með því að ráða of margt starfsfólk. Garg tvöfaldaði starfsmannafjölda félagsins á ríflega ári en hefur nú helmingað starfsmannafjöldann svo starfsmennirnir eru nú álíka margir og fyrir um tveimur árum.

Í yfirlýsingu sem Aurora sendi frá sér skömmu fyrir áramót sagði að félagið hefði áfram trú á Better og að af samrunanum yrði. Önnur uppsagnahrina var í byrjun mars þegar 3.100 starfsmönnum til viðbótar var sagt upp störfum og öðrum starfsmönnum boðið að segja sjálfir upp. Nokkur fjöldi þeirra sem sagt var upp þá komust að því þegar þeir fengu tilkynningu um starfslokagreiðslu í launakerfi fyrirtækisins áður en þeim hafði borist formleg uppsögn.

Afkoman langt undir áætlun

Fyrr í þessari viku var svo tilkynnt um þriðju uppsagnarhrinuna þar sem talið er að um 1.200-1.500 starfsmönnum hafi verið sagt upp. Í tilkynningu sem send var á starfsmenn kom fram að markmiðið með breytingunum væri að gera félaginu kleift að verða arðbært á ný.

Better hóf starfsemi árið 2016. Félagið býður upp á ýmsar fjártæknilausnir, sem m.a. eiga að auðvelda bandarískum almenningi að taka húsnæðislán á fremur stöðnuðum lánamarkaði. Fyrirtækið hefur vaxið hratt og notið góðs af lágu vaxtastigi og miklum áhuga bandarísks almennings á að endurfjármagna lán sín.

Nú er vaxtastig tekið að hækka og er orðið það hæsta á íbúðalánum í meira en áratug. Samhliða því dregur úr áhuga á endurfjármögnun lána sem hefur svo stuðlað að samdrætti hjá Better. Félagið tapaði um 270 milljónum dollara í fyrra, að megninu til á síðari hluta ársins.

Í rekstraráætlun félagsins sem kynnt var samhliða skráningaráformunum í maí var hins vegar gert ráð fyrir um 120 milljóna dollara hagnaði á árinu 2021 og að umsvif félagsins myndu margfaldast á næstu árum.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .