Íslenska hátæknifyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) hefur undanfarin tvö ár unnið að hönnun og byggingu stærstu efnaverksmiðju heims sem nýtir koltvísýrings-útblástur sem hráefni til efnavinnslu. Framkvæmdum er nú að ljúka og fyrirhugað er að hefja gangsetningu í sumar. Verksmiðjan sem staðsett er í Anyang í Henan héraði í Kína byggir á framleiðslutækni og búnaði sem þróaður hefur verið af CRI og var fyrst sannreynt í verksmiðju félagsins í Svartsengi. Félagið er leiðandi á heimsvísu í tækni til að framleiða græna efnavöru og rafeldsneyti með því endurnýta koltvísýring.
Uppsetningu tækjabúnaðar lokið og gangsetning hefst síðar í sumar
Lykilbúnaður í framleiðsluferli verksmiðjunnar er hvarfatankur sem hannaður er og smíðaður eftir forskrift CRI. Hvarftankurinn er fylltur með efnahvötum sem stuðla að umbreytingu koltvísýrings yfir í fljótandi metanól, sem nýta má bæði sem eldsneyti og hráefni í margvíslegar efnavörur. Hvarftankurinn vegur um 84 tonn eða sem nemur þyngd fullhlaðinnar Boeing 737-farþegaþotu. Hvarftanknum var því vandlega komið fyrir inni í stálgrind sem áður hafði verið reist og tengdur með lögnum við annan búnað, m.a. sérhæfða gasþjöppu og tæplega 70 metra háa eimingarsúlu, litlu lægri en Hallgrímskirkjuturn. Uppsetning á þeim framleiðslubúnaði er nú lokið en verið er að framkvæma lagna- og þrýstiprófanir ásamt öðrum prófunum. Tæknimenn CRI munu ferðast til Kína nú í sumar til þess að hafa umsjón með gangsetningu verksmiðjunnar.
Fyrsti áfangi verkefnisins hefur þegar verið gangsettur. Í því felst hreinsun og aðskilnaður á gasi frá koxofnum ásamt föngun á CO2-útblæstri sem ellegar færi út í andrúmsloftið. Gasið myndast sem aukaafurð við vinnslu á hráefnum svo sem koxi og kalksteini sem nýtt eru í stálframleiðslu. Metanólið er framleitt með svonefndri ETL-aðferð, þróaðri af CRI, og mun það koma í stað metanóls sem framleitt er úr kolum í Kína og draga þar með verulega úr bæði loftmengun og losun gróðurhúsalofttegunda.
Stærsta verksmiðja sinnar gerðar í heiminum
Verksmiðjan verður sú stærsta í heimi og mun geta endurnýtt 160.000 tonn koltvísýrings á ári úr útblæstri en árlega framleiðslugetu hennar er 110.000 tonn af metanóli. Verksmiðjan er byggð fyrir fyrirtækið Shunli sem er í meirihlutaeigu kínverska iðnfyrirtækisins Henan Shuncheng Group og mun fyrirtækið eiga og reka verksmiðjuna eftir að gangsetningu hefur verið lokið.
„Shunli-verksmiðjan er risastór áfangi í að minnka útblástur koltvísírings," segir Ingólfur Guðmundsson, forstjóri CRI. „Hún er einnig mikilvæg í þróun kínversks iðnaðar í átt að hringrásar-hagkerfinu og fyrir útflutningi á umhverfisvænum tæknilausnum frá Íslandi. Við hjá CRI hlökkum til að takast á við næsta áfanga í verkefninu, gangsettningu verksmiðjunnar sem verður framkvæmd nú í sumar. Einnig erum við að ljúka hönnun á verksmiðju númer tvö í Kína og finnum fyrir aukinni eftirspurn víða um heim eftir okkar umhverfisvænu tækni. Þetta verkefni er gott dæmi um samstarf þjóða í umhverfismálum. Það er nú ekkert því til fyrirstöðu að flýta þeirri þróun með því að auka fjárfestingar í arðsömum tæknilausnum og stórum verkefnum til að draga úr losun gróðurhúslofttegunda.“