Binance, stærsta rafmyntakauphöll heims, hefur samþykkt að kaupa einn stærsta keppinaut sinn FTX sem glímir nú við lausafjárvanda. FTX staðfesti fregnirnar en fyrirtækin hafa ekki gefið upp skilmála samningsins.

„Núna síðdegis óskaði FTX eftir aðstoð okkar,“ tísti Changpeng Zhao, forstjóri Binance. „Það er veruleg lausafjárkrísa. Til að vernda notendur höfum við skrifað undir viljayfirlýsingu um að við hyggjumst taka yfir FTX.com að fullu og hjálpa þeim að bæta lausafjárstöðu sína.“

Zhao tók fram að samkomulagið væri ekki bindandi. „Það er af nægu að taka og það mun taka sinn tíma. Þetta eru mjög kvikar aðstæður og við erum að meta stöðuna í rauntíma.“

Binance verður með yfirburði á rafmyntamarkaðnum ef af viðskiptunum verður, að því er kemur fram í frétt Financial Times. „Þetta gerir Changpeng Zhao að valdamesta leikmanni á rafmyntaheiminum,“ segir viðmælandi breska dagblaðsins.

Ákvörðunin var tekin eftir að rafmyntafyrirtæki, þar á meðal Binance, og fjárfestar byrjuðu að taka peninga sína út af FTX-reikningum vegna áhyggja yfir fjárhagsstöðu kauphallarinnar.

Rafmyntin FTT, sem FTX gefur út, hafði fallið um meira en þriðjung í verði áður en Binance sendi frá sér tilkynninguna. Verð rafmyntarinnar hefur engu að síur fallið um meira en fjórðung á síðasta sólarhring.