Hátt í tveggja milljarða króna utan­þings­við­skipti með bréf Heima sem til­kynnt voru í morgun blésu lífi í hluta­bréfa­markaðinn í dag sem hefur annars verið fremur daufur síðustu mánuði,

Sam­kvæmt heimildum Við­skipta­blaðsins var innlendur aðili á kaup­hliðinni í 1.855 milljarða króna við­skiptum með bréf fast­eigna­fé­lagsins. Um var að ræða við­skipti með 70 milljón hluti í Heimum á genginu 26,5 krónur. Dagsloka­gengi Heima var 26,6 krónur.

Tvö stór utan­þings­við­skipti með bréf Kviku banka voru einnig til­kynnt í morgun fyrir saman­lagt 319,5 milljónir króna. Þá var einnig til­kynnt um 360 milljón króna við­skipti með bréf Reita í morgun.

Heildar­velta í Kaup­höllinni í dag var 8,3 milljarðar en lítil breyting var á úr­vals­vísi­tölunni OMXI15 sem fór upp um 0,03% í við­skiptum dagsins. Úr­vals­vísi­talan átti sína bestu viku í rúmt ár í síðustu viku er hún fór upp um 4,55%.

Hluta­bréfa­verð Al­vot­ech leiddi hækkanir í síðustu viku er gengi líf­tækni­lyfja­fé­lagsins fór upp um tæp 20%. Dagsloka­gengi Al­vot­ech var ó­breytt frá föstu­deginum eftir um hálfs milljarðs við­skipti í dag.

Fast­eigna­fé­lagið Eik leiddi hækkanir í Kaup­höllinni í dag er gengi fé­lagsins fór upp um tæp 3% í 121 milljón króna veltu. Hluta­bréfa­verð Icelandair hækkaði einnig um tæp 3% í 183 milljón króna við­skiptum.

Ocu­lis leiddi lækkanir er hluta­bréfa­verð aug­lyfja­þróunar­fyrir­tækisins lækkaði um tæp 2% í 70 milljón króna veltu.