Hátt í tveggja milljarða króna utanþingsviðskipti með bréf Heima sem tilkynnt voru í morgun blésu lífi í hlutabréfamarkaðinn í dag sem hefur annars verið fremur daufur síðustu mánuði,
Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins var innlendur aðili á kauphliðinni í 1.855 milljarða króna viðskiptum með bréf fasteignafélagsins. Um var að ræða viðskipti með 70 milljón hluti í Heimum á genginu 26,5 krónur. Dagslokagengi Heima var 26,6 krónur.
Tvö stór utanþingsviðskipti með bréf Kviku banka voru einnig tilkynnt í morgun fyrir samanlagt 319,5 milljónir króna. Þá var einnig tilkynnt um 360 milljón króna viðskipti með bréf Reita í morgun.
Heildarvelta í Kauphöllinni í dag var 8,3 milljarðar en lítil breyting var á úrvalsvísitölunni OMXI15 sem fór upp um 0,03% í viðskiptum dagsins. Úrvalsvísitalan átti sína bestu viku í rúmt ár í síðustu viku er hún fór upp um 4,55%.
Hlutabréfaverð Alvotech leiddi hækkanir í síðustu viku er gengi líftæknilyfjafélagsins fór upp um tæp 20%. Dagslokagengi Alvotech var óbreytt frá föstudeginum eftir um hálfs milljarðs viðskipti í dag.
Fasteignafélagið Eik leiddi hækkanir í Kauphöllinni í dag er gengi félagsins fór upp um tæp 3% í 121 milljón króna veltu. Hlutabréfaverð Icelandair hækkaði einnig um tæp 3% í 183 milljón króna viðskiptum.
Oculis leiddi lækkanir er hlutabréfaverð auglyfjaþróunarfyrirtækisins lækkaði um tæp 2% í 70 milljón króna veltu.