Rishi Sunak fyrrverandi fjármálaráðherra Bretlands var efstur í fyrstu lotu leiðtogakjörs Íhaldsflokksins í Bretlandi sem haldin var í dag meðal þingmanna flokksins.

Jeremy Hunt, fyrrverandi heilbrigðisráðherra, og Nadhim Zahawi, núverandi fjármálaráðherra fengu fæst atkvæði og eru úr leik. Þeir náðu ekki 30 atkvæða lágmarkinu. Hunt fékk aðeins 8 atkvæði og Zahawi 25.

Rishi Sunak fékk 88 atkvæði en Penny Mordaunt, sem mælist hæst í könnunum, var önnur með 67 atkvæði. Liz Truss utanríkisráðherra var þriðja með 50 atkvæði. Kemi Badenoch, Tom Tugendhat og Suella Braverman eru einnig eftir í slagnum.

Kosningin heldur áfram á morgun og fram í næstu viku þangað til aðeins tveir frambjóðendur standa eftir. Þá verður kosið meðal um 200 þúsund flokksmanna Íhaldsflokksins og úrslitin tilkynnt 5. september.