Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech, keypti hlutabréf í líftæknifyrirtækinu fyrir tæplega 402 milljónir króna við opnun Kauphallarinnar í morgun.
Róbert keypti 320 þúsund hluti í Alvotech á genginu 1.255 krónur á hlut, samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar.
Hlutabréfaverð Alvotech hefur hækkað um 13% í meira en 800 milljóna króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Gengi félagsins stendur í 1.350 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð og hefur nú hækkað um tæplega 30% frá því að félagið birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung.
Samhliða færði Alvotech afkomuspá sína fyrir yfirstandandi ár og tilkynnti um að stefnt væri að skráningu á Nasdaq markaðinn í Svíþjóð þann 19. maí næstkomandi.
Félög tengd Róberti - Aztiq Pharma Partners Sárl og Alvogen Lux Holdings Sárl – eiga samanlagt um 63% hlut í Alvotech. Aztiq, fjárfestingafélag sem er að meirihluta í eigu Róberts, er stærsti einstaki hluthafi Alvotech með 33,5% hlut sem er um 133 milljarðar króna að markaðsvirði.