Róbert Wessman, eigandi vínframleiðandans Maison Wessman, hefur gengið frá kaupum á 45 hektara vínekru Vignoble des Verdots auk verslunarhúsnæðis í Saint-Cernin-de-Labarde í Frakklandi. David Fourtout, fyrrverandi eigandi Vignoble des Verdots, og Róbert Wessman undirrituðu í vikunni kaupsamning á Maison Wessman í Périgord í Frakklandi. Greint er frá kaupunum í fréttatilkynningu þar sem segir að með kaupunum verði til öflugt safn eðalvína frá svæðinu sem muni styðja við vöxt Maison Wessman sem og Vignoble de Verdots í Frakklandi og á alþjóðavettvangi.
„Verdots-víngarðurinn er staðsettur í Conne-de-Labarde, á landi sem er að mestu úr leir, tinnu og kalksteini. Vignoble des Verdots er þekkt fyrir gæði vínanna. Á 18 hekturum hafa verið gróðursettar hvítu þrúgutegundirnar Sémillon, Sauvignon Blanc og Sauvignon Gris et Muscadelle og á um 26 hekturum hafa verið gróðursettar rauðar þrúgutegundir; Merlot, Cabernet Sauvignon, Cabernet Franc og Malbec. Öll framleiðsla Vignoble des Verdots er sjálfbær en um 150.000 flöskur af Clos des Verdots, Château Les Tours des Verdots og Grand Vin „Les Verdots" voru framleiddar þar árið 2020,“ segir í fréttatilkynningunni.
Þar segir jafnframt að eitt af aðaleinkennum Vignoble des Verdots sé neðanjarðar öldrunarkjallarinn sem byggður sé inn í klett. Hann sé staðsettur fyrir ofan á sem renni neðanjarðar og kallist „Les Verdots" en áin hafi uppgötvast fyrir tilviljun við framkvæmdir á vínkjallaranum. Áin sé óaðskiljanlegur hluti af öldrun og þroska vínanna í kjallaranum þar sem hún virki sem náttúruleg loftkæling. Framleiðslan hjá Vignoble des Verdot sé sjálfbær og notkun meindýraeyða í algjöru lágmarki. Þá hafi verið þróuð þar aðferð við vínræktunina sem virði umhverfið án stórfelldrar efnafræðilegrar meðferðar. Vignoble des Verdot fylgi starfsaðferðum sem byggi á virðingu og umhyggju fyrir fólki og umhverfinu.
„Gæði Bergerac-vínanna er mikil en þau hafa ekki náð heimsathygli líkt og stóru frönsku vínin ," segir Róbert Wessman nýr eigandi Vignoble des Verdots. „Fyrir tæpum 20 árum keypti ég Château de Saint-Cernin, sem er nálægt Bergerac. Það gerði mér kleift að uppgötva hve frábær vínin eru í Bergerac . Það felast mikil tækifæri að auka veg þessara vína. Ég hef alltaf verið sérstaklega hrifinn af Vignoble des Verdots vínunum og markmið mitt er að vinna að því að þau komist á þann stall sem þau eiga skilið á alþjóða vettvangi," er haft eftir Róberti Wessman.
Um Verdots-víngarðinn:
Árið 1992 tók David Fourtout við Vignoble des Verdots sem hefur verið í eigu fjölskyldu hans í fjórar kynslóðir. Búið þekur 45 hektara af vínvið, 60% þeirra eru rauðir og 40% hvítir. Öll uppskera er handtínd og unnið er eftir aðferðum sjálfbærrar ræktunar.
Um Maison Wessman:
Robert Wessman, forstjóri Alvogen og stofnandi Alvotech, hefur brennandi áhuga á víni og deilir þeim áhuga með eiginkonu sinni. Eftir áralanga leit fundu þau vínekru með aðsetur í hjarta Périgord Pourpre, til að framleiða hágæða vín.
Upp úr þessu verkefni fæddist Maison Wessman. Árangurinn lét ekki á sér standa. Þegar N ° 1 Saint-Cernin Rouge kom á markað vann Maison Wessman til verðlauna sem besti svæðisvínbóndi ársins 2018 í Bergerac og Duras. Árangurinn varð til þess að Maison Wessman stækkaði framleiðsluna og útvíkkaði til annarra svæði. Í Limoux þróaði Maison Wessman 100% Chardonnay hvítvín, N ° 1 Saint-Cernin Blanc og Petit Cernin Blanc. Síðan hófst framleiðsla á rósa kampavíninu Champagne Wessman One Premier Cru Brut Rosé sem hlotið hefur góða dóma. Það nýjasta í flóru vína frá Maison Wessman er Champagne Wessman One Premier Cru Brut, en áætlað er að það verði sett á markað í nóvember 2021.