Af átta stærstu sveitarfélögum landsins eru fimm með útsvar í hámarki, eða sem nemur 14,97%. Um er að ræða Reykjavíkurborg, Reykjanesbæ, Akureyrarbæ og Mosfellsbæ og voru þau öll með sama álagningarhlutfall árið 2024, sem og árið 2023 þegar hámarkið var 14,74%.
Árborg var sömuleiðis með útsvar í hámarki árið 2023 og 2024 en álag var sett á útsvar sveitarfélagsins í fyrra þannig að álagningarhlutfallið nam 16,44%. Kópavogsbær og Hafnarfjarðarbær voru aftur á móti með 14,93% útsvarshlutfall árið 2024 og 14,7% árið 2023. Lægst var hlutfallið hjá Garðabæ eða 14,71% árið 2024 og 13,92% árið 2023.
Greitt útsvar var mest hjá Reykjavíkurborg í fyrra, eða um 957 þúsund krónur á hvern íbúa. Hjá Garðabæ var upphæðin um 914 þúsund, 870 þúsund hjá Kópavogsbæ, 850 þúsund hjá Árborg, 833 þúsund hjá Mosfellsbæ, 815 þúsund hjá Hafnarfjarðarbæ, 809 þúsund hjá Akureyrarbæ, og loks 775 þúsund hjá Reykjanesbæ. Útsvar er hlutfallslegur skattur og hærri tekjur íbúa skila sér eðlilega í hærri útsvarsgreiðslum, jafnvel þótt útsvarsprósentan sé lægri.
Í frumvarpi sem Eyjólfur Ármannsson innviðaráðherra lagði fram á þinginu fyrir rúmum mánuði síðan er meðal annars kveðið á um að skerða skuli framlög til sveitarfélaga sem fullnýta ekki heimild sína til álagningar útsvars.
Frumvarpið byggir á vinnu starfshóps um endurskoðun á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga frá árinu 2023 og hafði frumvarpið áður verið lagt fram á þinginu haustið 2023 en náði ekki fram að ganga. Umdeildustu breytinguna er að finna í 13. grein frumvarpsins, sem kveður á um að vannýting útsvars leiði til lækkunar framlaga úr sjóðnum. Það ákvæði var þó fellt úr frumvarpinu sem lagt var fram haustið 2023.
Af 62 sveitarfélögum eru alls 12 sem nýta ekki að fullu heimild til álagningar útsvars, eða 14,97%, árið 2025: Kópavogsbær (14,93%), Hafnarfjarðarbær (14,93%), Fjallabyggð (14,93%), Vestmannaeyjabær (14,91%), Garðabær (14,71%), Seltjarnarnesbær (14,54%), Tjörneshreppur (14,45%), Kjósarhreppur (14,45%), Hvalfjarðarsveit (14,14%), Skorradalshreppur (13,5%), Grímsnes- og Grafningshreppur (12,89%) og Fljótsdalshreppur (12,44%).
Nokkur sveitarfélög hafa gagnrýnt breytinguna harðlega, segja hana vega að sjálfsstjórnarrétti sveitarfélaganna og hvetji til aukinnar skattinnheimtu.
Í umsögn Garðabæjar kemur til að mynda fram að breytingin muni leiða til þess að greiðslur til sveitarfélagsins muni minnka um 218 milljónir króna. Þá bendir Fjallabyggð á að framlög muni minnka um 34,6 milljónir króna. Ætla má að skerðingar á framlögum til þeirra tólf sveitarfélaga sem ekki eru með útsvar í hámarki hlaupi í heildina á fleiri hundruð milljónum króna.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.