Úrvalsvísitalan hækkaði lítillega í 1,7 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Átta félög aðalmarkaðarins voru rauð og sjö græn í viðskiptum dagsins.

Á föstudaginn var 15,6 milljarða króna velta á aðalmarkaðnum, sem má að stærstum hluta rekja til lokauppboðs fyrir uppfærslu á vigt íslenska markaðarins hjá vísitölufyrirtækinu FTSE Russell sem tók gildi í dag.

Mesta veltan, eða hátt í 400 milljónir króna, var með hlutabréf Arion banka en gengi bankans stóð óbreytt í 151,5 krónum á hlut. Næst mesta veltan var með bréf Íslandsbanka en gengi þeirra hækkaði lítillega og stendur nú í 120,4 krónum á hlut.

VÍS hækkaði mest af félögum aðalmarkaðarins eða um 2,3% í 31 milljónar króna veltu en gengi vátryggingafélagsins féll um 5% á föstudaginn. Þá hækkaði gengi Eimskips um tæplega eitt prósent í 128 milljóna veltu og stendur nú í 520 krónum á hlut.