Guðjón Már Guðjónsson, einn fremsti frumkvöðull landsins, ræðir helstu verkefnin og áskoranir á ferlinum í nýjasta hlaðvarpsþætti Íslenska draumsins. Hann ræðir aðkomu sína verkefnum á borð við Nova, OZ Sports og Overtune.
Frá fyrstu forritun til viðskiptaheimsins
Guðjón segir að tölvur hafi alltaf verið ástríða hans og þegar hann fékk fyrstu tölvuna sína hóf hann strax að forrita. En í stað þess að dunda sér við leiki eða grafík, byrjaði hann á „leiðinlegum lausnum“ eins og hann orðar það – bókhaldskerfum, lagerstjórnun og öðru praktísku hugbúnaðarstarfi sem þótti ekki spennandi en var nauðsynlegt.
Áhugi hans á hagnýtum lausnum skilaði sér fljótt í fyrirtækjarekstur. Þegar hann var aðeins 17 ára stofnaði hann sitt fyrsta fyrirtæki OZ árið 1989. Þar þróaði hann með félögum sínum 3D forrit sem vakti athygli Microsoft, sem keypti það með 150.000 dollara ávísun. Guðjón segir frá því hvernig þau römmuðu ávísunina inn og hvernig það var risastór hvatning:
„Ef við unglingarnir erum nógu góðir fyrir Microsoft, þá erum við nógu góðir fyrir alla.“
Hann lauk störfum hjá fyrra OZ árið 2002 en árið 2009 stofnaði hann nýtt OZ, sem er í dag eitt af hans stærstu verkefnum.
Kom að upphafinu hjá NOva
Árið 1998 var fjarskiptamarkaðurinn á Íslandi enn í einokun ríkisins, en það breyttist þegar Guðjón stofnaði Íslandssíma, fyrsta einkarekna fjarskiptafyrirtækið á Íslandi. Fyrirtækið fór á markað aðeins tveimur árum síðar og síðar varð það hluti af Vodafone.
Guðjón Már sagðist hafa tekið að sér að stofna Nova fyrir Novator, fjárfestingarfélag Björgólfs Thors Björgólfssonar. Hann hafi komið að uppbyggingunni fyrstu tvö árin og svo afhent fyrirtækið til Novator og nýrra stjórnenda félagsins.
„Nova var stofnað eftir að ég hitti á [Björgólf Thor Bjórgólfsson] og Novator menn á landsleik úti í Búlgaríu. Við pitch-um hugmyndinni að það væri hægt að setja upp 3G fjarskiptanet mjög hratt með því að vinna með Orkuveitunni,“ sagði Guðjón Már.
Hann segir að í kjölfarið hafi „einstakir einstaklingar“, og nefnir þar Liv Bergþórsdóttur og Jóakim Reynisson, tekið við keflinu og byggt fyrirtækið upp í það sem Nova varð með glæsilegum árangri.
Mættu allir útúrreyktir
Eitt af verkefnum Guðjóns var þróun samfélagsvettvangs fyrir tónlistarfólk, svipað og Patreon, en með sterkari áherslu á tónlistariðnaðinn. Í viðtalinu segir hann frá því hvernig Patreon vann þá samkeppni, en að ferlið hafi verið ótrúlega áhugavert og leitt hann í samband við tónlistarmenn eins og Big Sean og fleiri stór nöfn í bransanum.
Hann deilir skemmtilegum sögum af fundum með stórstjörnum og hvernig það að þróa nýjar hugmyndir í samkeppni við risa eins og Patreon er bæði erfitt og lærdómsríkt.
„Mér fannst svolítið fyndið að vera í þessum bransa svolítið innan um rappsenuna sérstaklega, af því að hún var bara mest skapandi. Þar var svolítið krafturinn en þeir voru svo óáreiðanlegir allir.“
Hann nefnir sem dæmi að Big Sean hafi eitt sinn hringt í sig um það leyti sem hann var að fara að byrja með Big Sean áskriftarsíðu fyrir 5 dollara á mánuði. Þar tilkynnti tónlistarmaðurinn að hann hygðist fresta því að gefa út plötu og flytja til Detroit þar sem hann ætlaði að taka heilt ár í að finna sig.
„Ég var líka búinn að vera þá með ónefndum aðilum sem komu á fund hjá okkur í Los Angeles. Ég hlakkaði svo til að hitta þá alla og var búinn að undirbúa geggjaða kynningu – var bara upp á mitt besta. Svo bara koma þeir og eru allir útúrreyktir. Ég hugsaði bara, þetta er ekki bisniss. Ég nenni ekki að standa í þessu. Þetta var svolítið vandinn við tónlistarbransann.“
Einbeitir sér að OZ Sports
Eftir reynslu sína í tónlistarvettvangi þróaðist OZ yfir í að verða tæknifyrirtæki í íþróttaútsendingum. OZ Sports notar gervigreind til að búa til háþróaðar útsendingarlausnir fyrir íþróttir, þar sem sex myndavélar fylgjast sjálfvirkt með leiknum, tryggja endursýningar og skila út útsendingu í 4K60p gæðum án hefðbundins upptökuteymis.
Lausnin er miðuð að minni íþróttadeildum og -mótum, þar sem útsendingarkostnaður hefur alltaf verið mjög hár. Með OZ geti lítil mót og stórviðburðir fengið sömu gæðaútsendingu án þess að þurfa kostnaðarsamt starfslið og dýran búnað. Guðjón fer yfir hvernig OZ er að breyta leiknum og hvert fyrirtækið stefnir næst.
Guðjón segir í þættinum frá sigrum, mistökum, lærdómi og ævintýrum í viðskiptalífinu á einlægan og skemmtilegan hátt.
Uppfært: Kaflinn um Nova hefur verið uppfærður til endurspegla betur það sem Guðjón Már sagði í þættinum. Liv Bergþórsdóttir, fyrrverandi forstjóri Nova, gagnrýndi í dag ummæli Guðjóns Más um upphafið hjá Nova.