Rósa Guð­bjarts­dóttir, bæjar­stjóri Hafnar­fjarðar, hefur á­kveðið að gefa kost á sér á fram­boðs­lista Sjálf­stæðis­flokksins í Suð­vestur­kjör­dæmi fyrir komandi Al­þingis­kosningar.

Rósa tók sæti í bæjar­stjórn Hafnar­fjarðar árið 2006 og var áður for­maður bæjar­ráðs. Hún hefur síðan verið bæjar­stjóri síðustu ár en Valdimar Víðis­son, odd­viti Fram­sóknar­flokks, tekur við stöðunni þann 1. janúar 2025.

„Ég hef á­kveðið að gefa kost á mér í 3. sæti fram­boðs­lista Sjálf­stæðis­flokksins í Suð­vestur­kjör­dæmi fyrir komandi Al­þingis­kosningar.

Eftir að hafa leitt Sjálf­stæðis­flokkinn í Hafnar­firði í rúm 10 ár og átt þannig þátt í því að koma flokknum í meiri­hluta í bæjar­stjórn eftir langt hlé, vil ég leggja mitt af mörkum til að tryggja Sjálf­stæðis­flokknum glæsi­legan árangur í komandi kosningum,“ skrifar Rósa.

„Ég tel að mín reynsla sem bæjar­full­trúi í 18 ár, for­maður bæjar­ráðs og bæjar­stjóri í rúm 6 ár, muni nýtast vel í lands­málunum. Mín störf sýna að ég hef fylgt grund­vallar­hug­sjónum sjálf­stæðis­stefnunnar af ein­urð sem birtist meðal annars í á­byrgri fjár­mála­stjórn, frelsi til at­hafna, skatta­lækkunum, skilningi á því að vel­ferð sé ekki tryggð nema með öflugu at­vinnu­lífi og virðingu fyrir skatt­fé al­mennings.“

Rósa er stjórn­mála­fræðingur frá Há­skóla Ís­lands og starfaði um ára­bil við blaða- og frétta­mennsku, lengst af sem frétta­maður á frétta­stofu Stöðvar 2 og Bylgjunnar. Rósa hefur einnig verið ötull rit­höfundur og rit­stjóri hjá Bóka­fé­laginu.

Á árunum 2007–2009 var Rósa vara­þing­maður Sjálf­stæðis­flokksins og sat í nokkra mánuði á Al­þingi. Hún hefur tekið virkan þátt í störfum innan í­þrótta­hreyfingarinnar og er í fagráði Vel­ferðar­sjóðs barna.

Rósa er uppalin í Norðurbænum í Hafnarfirði og er stúdent frá Flensborgarskólanum. Hún er gift Jónasi Sigurgeirssyni og eiga þau fjögur börn.