Flugfarþegar sem áttu bókað flug til Ísraels og nærliggjandi landa um helgina stóðu frammi fyrir aflýstum ferðum eða seinkunum eftir loftárásir Írans.

EasyJet hefur til að mynda aflýst öllum ferðum til og frá Tel Aviv þar til 21. apríl. Wizz Air mun hins vegar halda áfram að fljúga þangað frá og með morgundeginum en aflýsti ferðum sínum í gær og í dag.

„Farþegar gætu upplifað einhverjar breytingar á áætlun en flugfélagið fylgist náið með ástandinu og munum við láta farþega vita um allar breytingar. Allir þeir sem verða fyrir áhrifum af áætlunarbreytingum munu geta endurbókað sig eða fengið endurgreiðslu“, segir í tilkynningu frá Wizz Air.

Ísraelsmenn lokuðu lofthelgi sinni á laugardagskvöld eftir að Íranar hófu sína fyrstu beinu árás á landið. Íranar skutu drónum og flugskeytum í átt að Ísrael til að hefna fyrir árás á sendiráð sitt í Damaskus þann 1. apríl sl.

Þýska flugfélagið Lufthansa aflýsti í dag öllum ferðum til og frá Tel Aviv, Erbil og Amman en segir að ferðir þangað hefjist aftur á morgun. Öllu flugi til Beirút og Tehran verður hins vegar aflýst til 18. apríl.