Hundruðum flugferða til og frá Newark Liberty-alþjóðaflugvellinum í New Jersey hefur annaðhvort verið seinkað eða aflýst undanfarna daga. Búist er við enn frekari röskunum á flugi í dag samkvæmt fréttaflutningi CNN.

Röskunin á sér rætur að rekja til bilunar á radar- og samskiptakerfi á flugvellinum sem varð til þess að flugumferðastjórar misstu tímabundið öll samskipti við flugvélar.

Atvikið varð til þess að fimm flugumferðastjórar tóku það sem er kallað áfallafrí (e. trauma leave) og verða frá störfum í 45 daga. Meira en 150 flugferðum til og frá flugvellinum var aflýst og urðu seinkanir á tæplega 350 flugferðum.

Vandamálið tengist einnig framkvæmdum á flugvellinum en ein af aðalflugbrautum Newark, 4L-22R, verður lokuð fram í miðjan júní meðan verið er að endurbyggja hana í samræmi við reglur FAA.

Fjarvera þessara flugumferðastjóra hefur þá varpað ljósi á þann starfsmannaskort sem var þegar við lýði áður en atvikið átti sér stað. Núverandi skortur flugumferðastjóra hefur ekki verið meiri í 30 ár en flugumferðastjórar í Bandaríkjunum eru tæplega 10.800 talsins.

Að sögn bandarískra flugmálayfirvalda er auðveldara sagt en gert að leysa skortinn en umsækjendur mega til að mynda ekki vera eldri en 31 árs. Ástæðan er sú að flugumferðastjórar þurfa að geta unnið í 20 eða 25 ár, samkvæmt reglum FAA, til að geta átt rétt á lífeyri þegar þeir neyðast svo til að fara á eftirlaun 56 ára.

Icelandair flýgur daglega til Newark Liberty en að sögn félagsins hefur röskunin á vellinum ekki haft áhrif á flug til og frá Íslandi.

Samkvæmt Guðna Sigurðssyni, upplýsingafulltrúa Icelandair, hefur núverandi staða á Newark aðallega haft áhrif á flug frá áfangastöðum í Bandaríkjunum og Kanada og hefur Icelandair því ekki orðið fyrir teljandi áhrifum.