Rubix Ísland hefur gengið frá samningi um kaup á Verkfærasölunni, sölu- og þjónustuaðila á rafmagns- og handverkfærum. Í fréttatilkynningu segir að kaupin séu hluti af fjárfestingaráætlun Rubix Íslandi.

Viðskiptablaðið sagði frá því í lok mars að félögin hefðu skilað inn samrunatilkynningu til Samkeppniseftirlitsins. Eftirlitið heimilaði kaupin viku síðar.

Velta Verkfærasölunnar var rúmlega 1,6 milljarðar króna á árinu 2021. Er starfsemi félagsins á þremur stöðum á landinu, í Reykjavík, Hafnarfirði og Akureyri. Til viðbótar við verslanir sínar hefur fyrirtækið einnig rekið viðgerðarþjónustu á öllum helstu vörumerkjum í rafmagns- og handverkfærum. Verkfærasalan er eini viðurkenndi sölu og þjónustu aðili á Milwaukee verkfæralínunni á Íslandi.

Verkfærasalan mun starfa áfram undir eigin vörumerki en verður framvegis hluti af Rubix samstæðunni. Þorlákur Marteinsson, stofnandi og framkvæmdarstjóri Verkfærasölunnar, verður áfram í ráðgjafarhlutverki. Bjarnþór Þorláksson sölustjóri og Marteinn Þorláksson, innkaupa- og markaðsstjóri, munu áfram veita um 30 manna starfsmannahópi Verkfærasölunnar forystu. Þeir munu framvegis heyra beint undir Jóhann Benediktsson, framkvæmdastjóra Rubix á Íslandi.

Þorlákur Marteinsson, stofnandi og framkvæmdastjóri Verkfærasölunnar:

„Þessi kaup staðfesta stöðu okkar sem fyrsta val á Íslandi í sölu og þjónustu með rafmagns- og handverkfæri. Við erum spennt að nýta þau tækifæri sem fylgja því fyrir okkur og viðskiptavini okkar að vera hluti af Rubix fjölskyldunni. Núna munu viðskiptavinir okkar hafa aðgang að enn breiðara vöruúrvali í verkfærum, öryggisbúnaði, vinnufatnaði og almennum varahlutum og viðgerðum á þeim.”

Rubix Group er einn stærsti birgi í Evrópu og þjónustar stóriðju og almennan iðnað með sölu á aðföngum, búnaði og annast viðgerðir. Rubix Group varð til við sameiningu IPH við Brammer árið 2017, eftir kaup Advent International á Brammer.

Jóhann Benediktsson, framkvæmdastjóri Rubix Ísland:

„Það eru forréttindi fyrir okkur að taka höndum saman með teymi Verkfærasölunnar. Þorlákur og fjölskylda hans hafa byggt upp leiðandi fyrirtæki í sölu og þjónustu með verkfæri á Íslandi, sem við viljum stækka enn frekar með þeim. Við hlökkum til að vinna með okkar nýja samstarfsfólki, í að hámarka tækifærin sem bæði fyrirtækin koma með í samstarfið, og að læra hvert af öðru í leiðinni. Saman munum við færa viðskiptavinum okkar og samstarfsaðilum enn frekari ávinning.”