Gengi rússnesku rúblunnar hefur veikst um tæplega 20% frá því í byrjun desember og hefur nú ekki verið veikari í tíu mánuði.

Í umfjöllun Financial Times segir að viðskiptaþvinganir vestrænna ríkja, samdráttur í tekjum af olíu og gasi og gríðarleg útgjöld til varnarmála hafi sett þrýsting á gjaldmiðilinn.

Gjaldeyrishöft eru í gildi í Rússlandi sem og frekari takmarkanir á gjaldeyrisviðskiptum erlendra aðila. Greiningaraðilar segja að gengi gjaldmiðilsins endurspegli ekki lengur mat á stöðu hagkerfisins til framtíðar heldur sveiflur á milliríkjaviðskiptum.

Gengi dollarans á móti rúblunni stendur nú 75 en gengið var í kringum 50 þegar rúblan náði sínu hæsta gengi í júlí 2022.

Seðlabanki Rússlands hefur unnið gegn veikingu rúblunnar með því að selja eignir í renminbi úr þjóðarsjóði Rússlands, í samræmi við viðmið bankans þegar orkutekjur eru undir spám.

Veikari rúbla hefur i för með sér auknar útflutningstekjur hjá Rússlandi þar sem tekjur af olíu og gasi eru að megninu til í dollurum og evrum en útgjöld ríkisins að stórum hluta í rúblum. Hagfræðingur sem FT ræddi við sagði að í hvert sinn sem gengið lækkar um eina rúblu, þá aukist tekjur ríkissjóðs Rússlands um 120 milljarða rúblna.

Veiking gjaldmiðilsins getur þó haft í för með sér hættu á aukinni verðbólgu vegna dýrari innflutnings. Jafnframt leiðir til hættu á fjármálastöðugleika vegna þrýstings á lausafjárstöðu.