Rúmfatalagerinn verður JYSK frá og með lokum september, en nafnbreytingin er síðasta skrefið í viðamiklum breytingum síðustu ára með endurnýjun verslana. Í tilkynningu segir framkvæmdastjórnin að nafnið „Rúmfatalagerinn“ endurspegli ekki lengur vöruúrval fyrirtækisins.

Björn Ingi Vilhjálmsson, framkvæmdastjóri Rúmfatalagersins, segir að með því að taka upp nýja nafnið sé verið að styrkja við þá vegferð sem verslunin hefur verið á síðustu árin. Fyrirtækið hafi breyst gríðarlega frá opnun árið 1987 og er í dag meira en bara lager af rúmfötum.

„Nafnbreytingin er vissulega stór áskorun og örugglega ekki óumdeild hjá einhverjum, en við teljum þetta vera rétt og jákvætt skref fyrir okkur og viðskiptavini okkar og tengslin við JYSK sem er leiðandi á heimsvísu verða enn sterkari,“ segir Björn.

„Það er okkur mikill styrkur að vera partur af stórri keðju.“

JYSK var stofnað árið 1979 sem lágvöruverðsverslun undir nafninu JYSK Sengetøjslager og Rúmfatalagerinn hóf starfsemi hér á landi árið 1987 í samstarfi við JYSK. Allt frá stofnun hefur félagið verið í nánu samstarfi við JYSK í Danmörku sem hefur vaxið í að verða alþjóðleg verslanakeðja sem rekur yfir 3.200 verslanir í 50 löndum víðs vegar um heiminn.

Á síðustu árum hefur JYSK látið af notkun nafnsins Sengetøjslager þar sem það er ekki lengur lýsandi fyrir starfsemina og er breytingin á Íslandi lokaskrefið í því ferli.

„Það er okkur mikill styrkur að vera partur af stórri keðju. Með þessu erum við að leggja lokahönd á að byggja upp nýja ímynd og leggja grunninn að fyrirtækjamenningu sem við höfum trú á að muni reynast fyrirtækinu og viðskiptavinum þess farsæl til framtíðar,“ segir Þórarinn Ólafsson, forstjóri Lagerinn Iceland, móðurfélags Rúmfatalagersins.