Samkvæmt könnun Prósent ætla Íslendingar að eyða 101.467 krónum í jólagjafainnkaup í ár. Þetta kemur fram á vef RSV en upphæðin er svipuð og í fyrra þegar leiðrétt hefur verið fyrir verðlagi en ívið lægri en árin 2021 og 2022.
Þegar horft er til ólíkra svara kynjanna virðast karlar sveiflast mun meira í jólagjafakaupum en konur eru líklegri til þess að áætla sömu eða sambærilega upphæð milli ára.
Þá hefur búseta svarenda einnig áhrif þar sem íbúar landsbyggðarinnar áætla að eyða meiru en íbúar höfuðborgarsvæðisins í jólagjafakaup í ár sem er í samræmi við síðustu ár.
Jólagjöfin í ár valin
Eitt af árlegum verkefnum Rannsóknaseturs verslunarinnar er val á jólagjöf ársins. Tilgangur verkefnisins er að greina hluta af neysluhegðun landans í aðdraganda jóla og vekja athygli á verslun í landinu.
„Ýmislegt var nefnt í svörum neytenda, allt frá hefðbundnum hörðum og mjúkum pökkum yfir í óefnislegar gjafir tengdar ást, gleði, hamingju, friði og heilsu. 2% svarenda óskuðu sér góðrar ríkisstjórnar og stjórnmálamanna. Hinn alræmdi AirFryer, sem lesendur muna eflaust eftir úr skýrslum RSV um jólagjöf ársins frá fyrri árum, sést enn á óskalistum fáeinna en fer þó hratt niður listann,“ segir í greiningu RSV.
Jólagjöfin í ár er þó allt sem fæst fyrir pizzagerðina. Sú jólagjöf er talin sameina fjölskylduna í samveru við gerð „föstudagspizzunnar“ og sé þá einnig afar nytsamleg.