Fjárfestingarfélagið Stoðir hagnaðist um tæplega 4,2 milljarða króna á síðasta ári en til samanburðar nam hagnaður félagsins 2,6 milljörðum árið 2023. Hagnaður jókst því um 1,6 milljarða á milli ára eða um 62%. Eigið fé Stoða í lok árs 2024 nam 52,2 milljörðum sem samsvaraði innra virði upp á 4,19 krónur á hlut. Ávöxtun hluthafa Stoða var því jákvæð um 8,3% á síðasta ári. Aðalfundur félagsins verður haldinn 8. apríl og verður þar m.a. tekin fyrir tillaga um greiðslu arðs til hluthafa upp á einn milljarð króna.

Þetta kemur fram í bréfi Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða, til hluthafa félagsins.

Heildartekjur námu 4,6 milljörðum en þar af var hreinn hagnaður af fjárfestingum 4,4 milljarðar. Er þar um að ræða hagnað af verðbréfaeign félagsins, þ.e. hlutabréfum, skuldabréfum, framvirkum samningum og skiptasamningum. Vaxtatekjur námu 266 milljónum króna og komu að mestu leyti til vegna vaxtatekna af innlánum. Gjaldeyrismunur var neikvæður um 26 milljónir króna en í bréfi Jóns segir að félagið stýri gjaldeyrisáhættu sinni með gjaldeyrisskiptasamningum en afkoma af þeim sé undir fjárfestingatekjum.

Rekstrarkostnaður nam 485 milljónum á síðasta ári og voru laun og launatengd gjöld sem fyrr stærsti kostnaðarliðurinn eða alls um 299 milljónir króna. Heildarkostnaður var þó vel innan við viðmið félagsins um að rekstrarkostnaður fari ekki yfir 1,5% af eigin fé þess.

52 milljarða eignir

Heildareignir Stoða í lok síðasta árs námu 52,2 milljörðum. Fjárfestingaeignir námu 48,9 milljörðum og handbært fé 3 milljörðum. Skráðar eignir námu 26,6 milljörðum króna en þar vega þyngst líkt og áður eignarhlutir í Arion banka, Símanum og Kviku banka. Óskráðar eignir námu 22,3 milljörðum en helstu eignir eru First Water, Arctic Adventures og Bláa Lónið.

106 hluthafar

Á lokadegi síðasta árs voru hluthafar Stoða 106 talsins og fækkaði um einn frá fyrra ári. S121 ehf. og tengdir aðilar eru sem fyrr langstærsti hluthafi Stoða með tæplega 67% eignarhlut. Helgafell ehf. er stærsti hluthafi S121 með 46% hlut. Ari Fenger, forstjóri 1912, er stærsti eigandi Helgafells með tæplega fjórðungshlut. Björg Fenger á rúmlega 20% hlut en hún er eiginkona Jóns Sigurðssonar, forstjóra Stoða. Kristín Fenger á 20% hlut og fyrrnefndur Jón Sigurðsson tæplega 20% hlut. Þá á Helga Lilja Gunnarsdóttir rúmlega 15% hlut í félaginu.