Lofts­lags­fyrir­tækið Running Tide hefur á­kveðið að hætta allri starf­semi á Ís­landi og hefur öllum starfs­mönnum fyrir­tækisins verið sagt upp.

Kristinn Árni L. Hró­bjarts­son, fram­kvæmda­stjóri Running Tide, greinir frá þessu á Lin­kedinen hann segir það hafi verið erfiðasti dagur sem hann hafi upp­lifað að þurfa segja upp öllu starfs­fólki fé­lagsins.

Fyrir­tækið hafði það að mark­miði að svara kalli milli­ríkja­nefndar Sam­einuðu þjóðanna um þátt­töku einka­aðila í að leysa loft­lags­vandann með kol­efnis­bindingu.

Running Tide hóf starf­semi á Ís­landi árið 2022 fyrir til­stilli Transition Labs, sem Davíð Helga­son og Kjartan Örn Ólafs­son stofnuðu, en Davíð er jafnframt fjárfestir í Running Tide.

Kristinn Árni var í kjöl­farið ráðinn fram­kvæmda­stjóri starf­seminnar á Ís­landi.

„Þar­síðasti föstu­dagur var einn erfiðasti dagur sem ég hef upp­lifað á mínum ferli, en þá þurftum við að segja upp öllu frá­bæra starfs­fólkinu okkar hjá Running Tide á Ís­landi og draga saman seglin hér á landi. Fjár­mögnun rann­sóknar- og ný­sköpunar­starfs er erfið al­mennt, og sér­stak­lega í nú­verandi há­vaxta­lands­lagi og við höfum ekki náð að sækja nýtt fjár­magn fyrir næstu skref. Á sama tíma og það sækir að mér mikil sorg að þurfa að hætta, er ég afar stoltur af þeim árangri sem við höfum náð,” skrifar Kristinn Árni á Lin­kedin.

Kristinn Árni á­réttar að Running Tide sé ekki gjald­þrota þó að verið sé að vinda ofan af starf­seminni á Ís­landi. Allir starfs­menn fyrir­tækisins fá greitt út upp­sagnar­frestinn og allir birgjar fá greitt.

„Starf­semin mun leggjast í dvala hér á landi en eftir standa rann­sóknar­niður­stöður sem eru að stóru leyti opin­berar og munu vonandi nýtast öðrum,” skrifar Kristinn Árni.

Fyrir um tveimur árum síðan undir­ritaði Running Tide samning við Breið - þróunar­fé­lag og út­gerðar­fé­lagið Brim um leigu hús­næðis undir að­stöðu fyrir rann­sóknir og fram­leiðslu á þörungum til kol­efnis­bindingar í hafi.

Running Tide rak þar rann­sóknar- og þróunar­starf á sviði líf­tækni en fyrir­tækið vann að því að þróa tækni og að­ferðir sem örva náttúru­leg ferli sjávarins í að grípa, binda, og geyma kol­efni til langs tíma.

Hluti lausnarinnar sem Running Tide vann að snérist um að rækta stór­þörunga sem binda kol­efni í stórum stíl á sér­hönnuðum baujum á hafi úti.

„Við unnum ítar­lega greiningu á mögu­legum um­hverfis­á­hrifum af kol­efnis­bindingu í hafi á stórum skala og við mældum sér­stak­lega þau at­riði sem gætu haft á­hrif á okkar litla skala. Við rann­sökuðum af­drif efnisins á hafs­botni - bæði sjálf og í sam­starfi við leiðandi haf­rann­sóknar­stofnanir á heims­vísu. Við tókum þátt í rann­sóknum á á­hrifum fljótandi timbur­kurls og mis­munandi kalk­steins­efna á efstu lög sjávar. Allt sem við gerðum var til þess að hafa sem mest já­kvæð á­hrif í lofts­lags­bar­áttunni en um leið sem minnst mögu­leg nei­kvæð á­hrif á vist­kerfi sjávar,” skrifar Kristinn Árni.

„Árangurinn er mikill en tíma­setningin, staða fjár­mögnunar­markaða og önnur ytri á­hrif eru þannig að við náðum ekki að tryggja nægt fjár­magn fyrir fram­hald rann­sóknar- og þróunar­starfs okkar hérna á Ís­landi - alla­vega ekki í bili. Rann­sóknir og þróun, varan­leg kol­efnis­binding og starf­semi á hafi úti eru allt saman flókin og dýr verk­efni. Varan­leg kol­efnis­binding er sömu­leiðis ekki orðin það þróaður markaður að auð­séð sé að kaup­endur séu til staðar fyrir af­urðina þegar hún er til­búin, en að lokum voru það að­stæður al­gjör­lega utan okkar stjórnar sem veittu verk­efninu náðar­höggið,” skrifar Kristinn Árni.