Í gær missti Rússland af lokagjalddaga ríflega hundrað milljóna dala vaxtagreiðslu og því stefnir í að Rússland muni ekki ná að greiða af skuldum sínum í fyrsta sinn frá árinu 1998. Gærkvöldið markaði lokin á þrjátíu daga greiðslustöðvun (e. grace period) sem Rússland sóttist eftir til að koma í veg fyrir greiðsluþrot, segir í frétt Financial Times.

Rússland býr yfir stórum gjaldeyrisforða, ekki síst vegna mikilla tekna af olíu og jarðgasi. Rússnesk stjórnvöld hafa ítrekað sagst vilja standa við skuldbindingar sínar en sakað ríkisstjórnir vestrænna ríkja um að þvinga þjóðina í „gervigreiðslufall“.

Viðskiptaþvinganir vestrænna þjóða hafa útilokað Rússland frá fjármálakerfum heims. Í síðasta mánuði lokaði fjármálaráðuneyti Bandaríkjanna fyrir smugu í viðskiptaþvingunum sem gerðu bandarískum fjárfestum kleift að taka við vaxtagreiðslum frá Rússlandi.

Samkvæmt skilmálum ríkisskuldabréfanna fer Rússland í greiðsluþrot ef skuldabréfaeigendur fá ekki greiðslur fyrir lok greiðslustöðvunar. Fjárfestar sögðu að hvorki væru nein merki um að von væri á vaxtagreiðslum né hafi rússnesk stjórnvöld gefið til kynna að þau hyggðust fara aðra greiðsluleið.

Í síðustu viku undirritaði Vladímír Pútín Rússlandsforseti tilskipun um að sett yrði upp kerfi til að greiða lánadrottnum í rúblum í stað annarra gjaldmiðla. Slík aðgerð jafngildir því að fara í greiðsluþrot samkvæmt skilmálum flestra erlendra lána rússkenska ríkissjóðsins.