Rússneskt jarðgas byrjaði aftur að flæða í gegnum Nord Stream 1-gasleiðsluna til Evrópu í morgun. Rússneska olíufyrirtækið Gazprom lokaði fyrir gasflutninga í gegnum Nord Stream 1 í síðustu viku vegna viðhaldsvinnu en stjórnvöld í Þýskalandi og ESB óttuðust að flutningar myndu ekki hefjast aftur í dag líkt og áætlanir Gazprom gerðu ráð fyrir.

Rekstraraðili gasleiðslunnar, Nord Stream AG, tilkynnti í morgun að gasleiðslan hafi verið tekin í notkun í morgun. Fyrirtækið sagði að það myndi sennilega taka nokkra klukkutíma að ná upp magninu á ætlað stig.

Sjá einnig: Saka Rússa um að keyra upp orkuverð

Framkvæmdastjóri þýsku orkustofnunarinnar segist gera ráð fyrir að framboðið í gegnum Nord Stream 1 verði áfram um 60% undir því magni sem flæddi í gegnum leiðsluna fyrir stríðið í Úkraínu. Gazprom skerti framboð í gegnum leiðsluna um meira en helming í síðasta mánuði.