Starfsemi Ríkisútvarpsins er þröngur stakkur sniðinn fyrir rekstrarárið 2025, að því er kemur fram í fundargerð stjórnarfundar frá 18. desember sl.

Samkvæmt fjárlögum 2025 fær RÚV 6,5 milljarða króna framlag frá ríkinu í gegnum útvarpsgjald, auk þess sem stofnunin áætlar að selja auglýsingar fyrir 2,7 milljarða.

Í fundargerðinni er m.a. farið yfir uppfærða rekstraráætlun fyrir árið 2025 en enn sé stefnt á að starfsemin skili 100 milljóna hagnaði. Með því sé verið að vinna upp helminginn af áætluðu rekstrartapi ársins 2024. Markmiðið sé einkum sett með hliðsjón af neikvæðri sjóðstöðu félagsins en unnið sé að bæta hana þannig að hún verði jákvæð í lok þessa árs.

Þjónustu- og auglýsingatekjur fyrir 2025 séu nær óbreyttar að raunvirði milli ára. Bætt afkoma felist því fyrst og fremst í áframhaldandi aðhaldi í launakostnaði, lækkun fjármagnskostnaðar, minna umfangi sýningarrétta í íþróttum og öðru aðhaldi í rekstri deildanna.

Fréttin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu.