Stjórnendur Ríkisútvarpsins (RÚV) gera ráð fyrir að félagið verði rekið með í kringum 150-200 milljóna króna tapi í ár. Þetta kemur fram í fundargerð stjórnarfundar frá 30. október síðastliðnum.

Líkt of Viðskiptablaðið greindi frá var RÚV rekið með 470 milljóna króna tapi á fyrstu sjö mánuðum ársins, en lök rekstrarniðurstaða var m.a. rakin til hárra gjaldfærslna á sýningarrétti vegna EM í fótbolta og Ólympíuleika en einnig til launa- og verktakakostnaðar vegna eldsumbrotanna á Reykjanesi og forsetakosninga í byrjun júní.

Í nýrri fundargerð kemur fram að afkoma RÚV á fyrstu níu mánuðum ársins hafi verið 145 milljónum króna lakari en uppfærð áætlun gerði ráð fyrir, en ekki er gefið upp hver afkoman var.

Fram kemur að afkoma félagsins í september hafi verið jákvæð um 10 milljónir króna í september sem var 22 milljónum króna betra niðurstaða en áætlun gerði ráð fyrir. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði hafi hins vegar verið undir væntingum.

„Þar vegist á nokkur atriði s.s. lægri auglýsingatekjur (aðallega í útvarpi), einskiptis gjaldfærsla í íþróttum vegna eldri birgða og lægri launakostnaður í framleiðslunni.“

Áætlað var að sjóðstaða RÚV verði neikvæð um nálægt 100 milljónir króna í árslok með 50 milljóna vikmörkum. Markmiðið sé að halda áfram að bæta sjóðstöðuna þannig að hún verði jákvæð um 50-80 milljónir í árslok 2025.

Fækka þurfi stöðugildum frekar

Stöðugildi hjá RÚV voru að meðaltali fimm fleiri að meðaltali á fyrstu níu mánuðum ársins en á síðasta ári. Stöðugildi voru 273 í september en voru farin að fækka til samræmis við þær ráðstafanir sem gripið var til, að því er segir í fundargerðinni. Stöðugildi hafi ekki færri síðan í ágúst 2023.

„Halda þurfi áfram að fækka stöðugildum til að koma launakostnaðinum í viðráðanlegra horf samanber umræður fyrri funda.“

Verktakavinna aukist mikið

Þá er áætlað að umfang verktakakaupa í ár verði meiri en það hefur verið, bæði í fjölda verktaka og útgreiðslan að raunverði, en a.m.k. síðan árið 2018.

Heildargreiðslur til verktaka stefni í 1,1-1,2 milljarða króna sem er 100-200 milljónum meira en meðaltalið á árunum 2018-2023 að raunvirði.

„Umfangsmiklir viðburðir í ár skýri þetta að miklu leyti en eins og áður sé mikilvægt að rýna þennan kostnað vel og meta hvort það þurfi að gera hlutina með öðrum hætti.“