Ríkisútvarpið kemur til með að selja sjónvarpsauglýsingar að andvirði á bilinu 13,7 til 16 milljónir króna á aðalkeppni Eurovision sem fer fram á laugardagskvöld. Samkvæmt upplýsingum frá miðlinum kostar hver birt sekúnda á bilinu 17 til 21 þúsund krónur en Ríkisútvarpið hefur úr 12-14 mínútum af auglýsingaplássi að moða.
Sjónvarpsauglýsingar eru eðli máls samkvæmt mislangar en hefðbundin lengd á auglýsingu á laugardag verður á bilinu 10 til 15 sekúndur. Það má því reikna með að meðalauglýsingin kosti á bilinu 195.000 til 285.000 krónur án virðisaukaskatts.
Auglýsingapláss eru misdýr eftir hve mikið áhorf er á einstaka viðburði og dagskrárliði. Samkvæmt upplýsingum frá Ríkisútvarpinu er hvað mest áhorf á aðalkeppni Eurovision og á áramótaskaup.