Samkvæmt fundargerð stjórnar Ríkisútvarpsins ohf. var afkoma ríkismiðilsins betri á fyrstu fjórum mánuðum ársins en gert var ráð fyrir en RÚV tapaði 190 milljónum á tímabilinu janúar til apríl.
Í lok febrúar var unnið mat á ráðstöfunum til að bæta rekstrarafkomu og sjóðstöðu RÚV á yfirstandandi ári en í fundargerð segir að á þeim tíma var talið að umfang ráðstafana gagnvart rekstrarafkomunni þyrfti að vera í kringum 280- 290 milljónir króna.
Forsendur rekstraráætlunarinnar voru í kjölfarið endurmetnar og gripið var til ráðstafana til að bæta afkomuna. Samkvæmt fjármálastjóra félagsins var farið í endurmat á ýmsum tekju- og útgjaldsforsendum og dregið úr endurráðningum þar sem hægt var, s.s. þegar starfsmenn höfðu látið af störfum.
Hætta útsendingum til sjófarenda
Í minnispunktum Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra segir að vænta megi breytinga á fyrirkomulagi hljóðvarps- og sjónvarpsútsendinga á árinu.
Útsendingum RÚV hefur undanfarin ár verið dreift um gervihnött til sjófarenda að frumkvæði stjórnvalda og á grunni sérstakrar fjármögnunar og segir Stefán að þar sem slík dreifing er ekki skilgreint verkefni RÚV í lögum og fjárveiting fellur niður verður því nú hætt.
Stefán segir að ekki hafi verið unnt að segja upp þessum hluta dreifingarsamningsins fyrr en nú en fjárveiting féll niður í hagræðingaraðgerðum fyrir nokkrum árum.
Sérstök skýrsla var unnin þar sem kannað var hjá öllum helstu útgerðaraðilum hver staðan væri og aðrir dreifimöguleikar kortlagðir, þar á meðal í gegnum IPTV-kerfi, Internetið, farsímakerfi eða UHF. Í ljósi þeirrar vinnu mun RÚV hætta dreifingu síðar í sumar.