Tap varð af rekstri Ríkisútvarpsins sem nemur 470 milljónum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins.

Stjórnendur RÚV segja að rekstrarafkoma félagsins stefni að óbreyttu í að verða neikvæð í kringum 200 milljónir króna fyrir árið í heild sinni þrátt fyrir að ráðist hafi verið í hagræðingaraðgerðir síðastliðið vor.

Tap varð af rekstri Ríkisútvarpsins sem nemur 470 milljónum króna á fyrstu sjö mánuðum ársins.

Stjórnendur RÚV segja að rekstrarafkoma félagsins stefni að óbreyttu í að verða neikvæð í kringum 200 milljónir króna fyrir árið í heild sinni þrátt fyrir að ráðist hafi verið í hagræðingaraðgerðir síðastliðið vor.

„Lakari afkoma kallar á að farið verði í frekari ráðstafanir með það að markmiði að draga eins og kostur er úr neikvæðri afkomu á yfirstandandi ári og tryggja að rekstur og sjóðstaða verði komin í viðunandi horf í upphafi næsta rekstrarárs og að rekstur félagsins verði hallalaus árið 2025,“ segir í nýrri fundargerð stjórnar RÚV.

Stjórn óskar eftir útlistun á mótvægisráðstöfunum

Stjórn RÚV áréttaði á stjórnarfundinum, sem fór fram í lok ágúst, að niðurstaðan fyrir fyrstu sjö mánuði ársins væri ekki í samræmi við væntingar „og ekki síst að sjá þessi auknu frávik í maí-júlí frá uppfærðri áætlun“.

Á undanförnum stjórnarfundum hafi þeim verið kynnt lakari afkoma og hafi stjórnin ekki fengið nákvæma útfærslu á mótvægisráðstöfunum. Ákveðið var á fundinum að stjórn fengi nánari útlistun á ráðstöfunum á næsta stjórnarfundi.

Gerðu ekki ráð fyrir forsetakosningum í rekstraráætlunum

Stjórnendur RÚV segja að afkoman á tímabilinu maí til júlí hafi ollið vonbrigðum og verið lakari en áætlanir höfðu gert ráð fyrir. RÚV sýndi frá Eurovision, EM-karla í fótbolta og Ólympíuleikunum og fjallaði m.a. um forsetakosningarnar á þessu tímabili.

RÚV rekur lakari afkoma til aukins kostnaðar fréttastofu og kostnaðar við dagskrárgerð sjónvarps.

„Af einstökum liðum vegur þyngst kostnaður vegna forsetakosninganna en við vinnslu rekstraráætlunar ársins lá ekki fyrir að kosið yrði á yfirstandandi ári né að umfangið í kringum kosningarnar yrði jafn mikið og raun bar vitni og féll sá kostnaður að mestu leyti til í maí og júní. Þá féll einnig til talsverður umframkostnaður vegna Eurovision.“

Í fundargerðinni segir að umframútgjöld fréttastofu megi nær alfarið rekja til ófyrirséðs og aukins launa- og verktakakostnaðar vegna eldsumbrota á Reykjanesi auk útgjalda vegna forsetakosninga.

Háar gjaldfærslur á sýningarréttum

Stjórnendur RÚV segja að tapreksturinn á fyrstu sjö mánuðum ársins gefi ekki rétta mynd af áætlaðri afkomu ársins.

„Annars vegar er rekstrarafkoma félagsins jafnan lakari fyrri hluta árs en síðari hluta árs og hins vegar voru mjög háar gjaldfærslur á sýningarréttum á íþróttaefni í júní og júlí en þær námu samanlagt 366 milljónum króna.

Þá kemur fram að auglýsingatekjur RÚV séu nánast á pari fyrstu sjö mánuði ársins samanborið við endurskoðaða áætlun.