Ríkisútvarpið (RÚV) er umsvifamesti ríkisfjölmiðillinn á Norðurlöndum þegar litið er til markaðshlutdeildar á hverjum markaði. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs á umhverfi fjölmiðla á Íslandi.

Af heildartekjum fjölmiðla hefur RÚV 27% tekna á íslenskum fjölmiðlamarkaði, en hlutfallið er að jafnaði 10% á öðrum Norðurlöndum.

„Þá er RÚV eini norræni ríkismiðillinn sem fjármagnaður er með opinberum framlögum og er samtímis í virkri samkeppni við einkaaðila um auglýsingatekjur,“ segir í úttekt ráðsins.

„Mikil umsvif RÚV og vera miðilsins á auglýsingamarkaði brenglar verulega samkeppnisskilyrði annarra fjölmiðla. Ríkismiðillinn nýtur bæði framlaga úr ríkissjóði og allir landsmenn eru skyldugir til að vera í áskrift að miðlinum. Í krafti opinberrar meðgjafar og samkeppnisforskots er RÚV þannig aðsópsmeira á auglýsingamarkaði en ella, sem veikir stöðu einkarekinna miðla enn frekar.“

Mynd tekin úr úttekt Viðskiptaráðs.

Viðskiptaráð segir að fjölmiðlastyrkir hins opinbera, sem var ætlað að draga úr þeirri skekkju sem ofangreind meðgjöf með ríkismiðlinum skapar, dugi skammt samanborið við opinber framlög til RÚV. Ríkisútvarpið hlaut tólffalt hærra framlag en allir einkareknir fjölmiðlar til samans árið 2023.

Bent er á að RÚV sé aðeins þriðji vinsælasti fréttamiðill Íslendinga ef litið sé til fjölda notenda, en Vísir og Morgunblaðið eru ofar í notkun.

„Vinsældir einkarekinna fréttamiðla sýna að opinber framlög eru í engu samræmi við verðmætamat almennings á þeirri þjónustu sem fréttamiðlar veita.“

Mun minni fækkun starfsfólks hjá RÚV

Starfandi hjá einkareknum fjölmiðlum hefur fækkað um 69% frá 2008, eða úr 2.040 manns í 640. Á sama tímabili hefur starfandi hjá Ríkisútvarpinu fækkað um 16%, úr 320 í 270.

„Frá hagræðingaraðgerðum hjá RÚV árið 2013 hefur starfandi hjá stofnuninni fjölgað um 13% samanborið við 62% fækkun á einkareknum miðlum.“

Hlutdeild í auglýsingatekjum hríðfallið

Í úttektinni er varpað ljósi á hvernig hlutdeild miðla í auglýsingatekjum hefur þróast á undanförnum árum. Hlutdeild innlendra einkarekinna fjölmiðla í auglýsingatekjum hefur minnkað um 39 prósentustig, úr 81% árið 2009 niður í 42% árið 2023. Hlutdeild RÚV yfir sama tímabil lækkaði úr 14% í 9%.

Þróunin skýrist einkum af tekjuaukningu erlendra miðla, sem tengist að öllum líkindum innreið samfélagsmiðla, en hlutdeild þeirra fór úr 4% upp í 49% yfir tímabilið.

„Ýmsar kvaðir hvíla á innlendum fjölmiðlum sem erlendir miðlar þurfa ekki að fara eftir. Slíkar kvaðir geta gert erlenda miðla að álitlegri kosti til birtinga á auglýsingum og veikt stöðu innlendra miðla,“ segir í úttektinni.

„Dæmi um slíkt er bann við áfengisauglýsingum í innlendum miðlum, hömlur á auglýsingar veðmálastarfsemi og kröfur um að erlent efni sé texta- eða talsett á íslensku.“

Leggja til fjórar tillögur

Viðskiptaráð segir að langtímasýn sín sé að ríkið stígi alfarið út af fjölmiðla­markaði og eftirláti einkaaðilum þá starfsemi. Ráðið telur aftur á móti ekki raunhæft að það eigi sér stað á næstu misserum og hefur því útfært fjórar tillögur sem myndu færa umfang RÚV nær því sem gerist á öðrum Norðurlöndum.

Tillögurnar fela í sér að RÚV hverfi af auglýsingamarkaði og að samhliða verði fjölmiðlastyrkri afnumdir. Þá verði komið á fót samkeppnissjóði um innlenda dagskrárgerð, aflétt banni við áfengis- og veðmálaauglýsingum og lagt niður Fjölmiðlanefnd.