Andri Guðmundsson, meðstofnandi Vaxa, segir frá því í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins hvernig rannsóknir á vegum Geimferðastofnunar Bandaríkjanna (NASA) knýja öran framleiðnivöxt hjá hátæknigróðurhúsum. Það geti svo haft mikla þýðingu fyrir matvælaframleiðslu á Íslandi á næstu árum.
Hann bendir á að í dag sé stórum hluta ferskra kryddjurta á Íslandi flogið frá Keníu til Hollands til pökkunar og svo áfram til Íslands með tilheyrandi kostnaði, kolefnisfótspori og sóun. „Á næstu 5-10 árum munum við í auknum mæli sjá innlenda framleiðslu á grænmeti, kryddjurtum og öðru slíku sem er nú flutt til landsins.“
Þetta þýði þó ekki að gróðurhús muni ryðja hefðbundinni ræktun úr vegi, né heldur að sígildar kenningar um verkaskiptingu í alþjóðahagkerfinu verði skyndilega úreltar.
„Bændur hafa stundað stýrðan landbúnað hér á landi mjög lengi, enda eru þessi hefðbundnu gróðurhús ein útfærsla af stýrðum landbúnaði. Munurinn á okkar gróðurhúsum og hinum er að við stýrum öllu ferlinu. Þessi leið sem við förum mun ekki verða til þess að aðrar gerðir ræktunar leggist af. Fólk mun áfram geta keypt salat frá Spáni og tómata frá Marokkó. Við erum alls ekki að tala fyrir því að við hættum að flytja inn grænmeti og ávexti að utan og í staðinn verði allt framleitt á Íslandi. Það er aftur á móti þannig að bændur sem rækta matvæli utanhúss eru að takast á við mjög stórar áskoranir eins og áður segir.“
Hann bendir á að loftslagsbreytingar geti einnig leitt til þess að lönd sem hafa lengi búið við mjög hagstæð skilyrði til matvælaframleiðslu undir berum himni muni í auknum mæli þurfa að færa framleiðsluna innandyra. Að því sögðu sé þó sem áður mikilvægast að framleiða gæða vöru með eins litlum tilkostnaði og mögulegt er.
„Ef hinn almenni neytandinn þarf að borga fimm sinnum hærra verð fyrir grænmeti sem er ræktað hér á landi með mun vistvænni hætti en erlendis, kaupir hann samt frekar erlenda grænmetið. Íslenski grænmetisgeirinn þarf því að bjóða upp á jafn góða eða betri vöru og um leið að tryggja að hún sé á samkeppnishæfu verði. Innlend vara sem er annaðhvort lélegri eða miklu dýrari en innflutt vara er ólíkleg til þess að slá í gegn. Neytendur vilja flestir kaupa íslenska matvöru en við sem störfum í matvælaframleiðslu þurfum að tryggja nægilegt framboð, gæði og um leið að verð séu samkeppnishæf.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.