Stjórn Samtaka atvinnulífsins (SA) hefur samþykkt að leggja til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn Eflingar sem starfa samkvæmt aðalkjarasamningi og veitinga- og gistihúsasamningi SA og Eflingar eftir að viðræður Ríkissáttasemjara um helgina báru ekki árangur.
„Umsvifamikil verkföll Eflingar munu lama íslenskt samfélag að stórum hluta og valda gríðarlegum kostnaði. Verkbann er neyðarúrræði atvinnurekanda í vinnudeilum til að bregðast við verkföllum og er ætlað að lágmarka tjón atvinnulífsins vegna verkfalla Eflingar,“ segir í tilkynningu á vef SA.
Verkbann SA myndi þýða að félagsfólk Eflingar mætir ekki til starfa og launagreiðslur falla niður. Samtökin segja að með verkbanni horfi þau til þess að stjórna framkvæmd vinnustöðvana og auka þrýsting á Eflingu að ljúka yfirstandandi kjaraviðræðum.
Forystufólk SA og Eflingar fundaði hjá Ríkissáttasemjara um helgina en viðræðum var slitið í gær. SA segja að reynt hafi á þanþol þess samningsramma sem markað hafði verið í kjarasamningum á almennum vinnumarkaði. Ófrávíkjanleg krafa Eflingar um að fá meiri hækkanir en fólk í sambærilegum störfum utan höfuðborgarsvæðisins er óaðgengileg að sögn SA.
„Samtök atvinnulífsins geta ekki teygt sig lengra í átt til Eflingar án þess að kollvarpa þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir en að baki þeim standa tæplega 90% starfsfólks á almennum vinnumarkaði. Það hníga engin rök að því að eitt stéttarfélag fái langtum meiri hækkun á þessum tíma en önnur.
Stuttum kjarasamningum er ætlað að bregðast við mikilli verðbólgu og verja kaupmátt almennings án þess að valda atvinnuleysi og langvarandi verðbólgutímum á Íslandi, líkum þeim sem eldri kynslóðir muna vel eftir.“