Samtök atvinnulífsins hafa ákveðið að fresta upphafi boðaðs ótímaundins verkbanns um rúma fjóra sólarhringi, eða til kl. 16 á mánudaginn í næstu viku, 6. mars.
„Ríkissáttasemjari hefur óskað eftir fundi með SA og Eflingu til að ráðgast um framlagningu miðlunartillögu. Samtök atvinnulífsins fresta því fyrirhuguðu verkbanni um rúma 4 sólarhringa að beiðni ríkissáttasemjara,“ segja SA í tilkynningu.
Aðildarfyrirtæki SA samþykktu verkbann á félagsmenn Eflingar í atkvæðagreiðslu sem lauk á miðvikudaginn. Um 94,7% þeirra sem tóku þátt greiddu atkvæði með verkbanni. Til stóð að verkbannið tæki gildi í næstu viku á fimmtudaginn, 2. mars.
Í samtali við RÚV segist Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari, hafa hvatt SA til að fresta boðuðu verkbanni til að búa til aukið svigrúm meðan samningsviðræður standa yfir. Ástráður hafði lýst því yfir á síðustu dögum að hann væri með nýja miðlunartillögu til skoðunar.