Samtök atvinnulífsins (SA) furða sig á því að lagafrumvarp fjármálaráðherra um kaup á húsnæði í Grindavík nái ekki yfir atvinnuhúsnæði í bænum „sem er óréttlætanlegt að mati samtakanna“. SA telja að endurskoða verði frumvarpið þannig að gildissvið þess taki jafnt til atvinnuhúsnæðis og íbúðarhúsnæðis.
„Í frumvarpinu er enginn rökstuðningur fyrir því af hverju eignum vegna atvinnurekstrar er haldið utan við gildissvið laganna,“ segir í umsögn SA.
„Ef fram heldur sem horfir munu fasteignir í Grindavíkurbæ ekki nýtast eigendum þeirra á árinu 2024 líkt og staðfest er með þessu frumvarpi. Það gildir jafnt um íbúðar- sem atvinnuhúsnæði enda var öllum, íbúum og þeim sem stunda atvinnurekstur í bænum, gert að rýma Grindavík með ákvörðunum lögreglustjórans á Suðurnesjum. Ljóst er að fyrirtæki í Grindavík verða fyrir verulegu tjóni sem hlýst af því að eign verður ekki notuð á þeim tíma eða með þeim hætti, sem ráðgert hafði verið.“
SA minna í þessu samhengi á ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar sem mælir fyrir um að allir skulu vera jafnir fyrir lögum.
Frumvarp um kaup ríkissjóðs á íbúðarhúsnæði í Grindavík var samþykkt á ríkisstjórnarfundi í lok síðustu viku. Fjármálaráðherra mun leggja frumvarpið fram á Alþingi í næstu viku en samkvæmt því mun ríkissjóður bjóðast til að kaupa íbúðarhúsnæði einstaklinga og taka yfir þau íbúðalán sem á því hvíla. Frestur til að skila inn umsögn lauk á mánudag.
Umfang aðgerðarinnar er metið allt að 61 milljarði króna en frumvarpið gerir ráð fyrir að eignirnar verði keyptar á verði sem nemur 95% af brunabótamati að frádregnum veðskuldum. Frumvarpið nær ekki til húsnæðis í eigu lögaðila.
SA segja að fyrirtæki með starfsemi í Grindavík eigi mörg hver verðmætar eignir í bænum, þar á meðal fasteignir. Fasteignir og lausafé sem er brunatryggt er vátryggt í samræmi við lög um Náttúruhamfaratryggingu Íslands. Lögin mæli m.a. fyrir um skyldu til að vátryggja allar húseignir gegn tjóni af völdum náttúruhamfara.
„Gera lögin engan greinarmun á atvinnu- og íbúðarhúsnæði í því sambandi. Allar sömu takmarkanir er að finna í skilmálum trygginga vegna atvinnuhúsnæðis er varða tjón sem hlýst af völdum jarðskjálfta, eldgoss, skriðufalla eða annarra náttúruhamfara (force majeure) og í tryggingum sem snúa að íbúðarhúsnæði. Eigendum atvinnuhúsnæðis stendur því ekki til boða frekari tryggingavernd gegn náttúruhamförum en öðrum fasteignaeigendum.“
Gagnrýna þriggja daga umsagnarfrest
SA gera alvarlegar athugasemdir við hinn skamma frest sem veittur var til umsagnar en drög að frumvarpinu var til umsagnar í þrjá daga.
„Þrátt fyrir að skiljanlegt sé að málið þurfi hraða framgöngu verður að gefa hagsmunaaðilum svigrúm til að meta áhrif frumvarpsins og koma með viðeigandi athugasemdir.“
SA benda á að samkvæmt 3. gr. samþykktar ríkisstjórnarinnar um undirbúning og frágang stjórnarfrumvarpa og þingsályktunartillagna, sbr. 10. gr. reglna um starfshætti ríkisstjórnarinnar, nr. 791/2018, frá 24. febrúar 2023, nemur hæfilegur frestur til að gefa almenningi kost á að koma á framfæri umsögnum og ábendingum um áform um lagasetningu og frummat á áhrifum a.m.k. tveimur til fjórum vikum.