Samtök atvinnulífsins hafa sent frá sér tilkynningu þar sem þau segja að áformuð verkföll Eflingar í ræstingu, öryggisgæslu og á hótelum muni ekki koma til framkvæmda 28. febrúar eins og boðað hafði verið.

„Engin tilkynning hefur borist Samtökum atvinnulífsins með verkfallsboðun og því er héðan af ekki hægt að boða verkfallið með lögbundnum sjö sólarhringa fyrirvara,“ segir í tilkynningu SA.

Samkvæmt 16. grein laga um stéttarfélög og vinnudeilur ber að tilkynna um ákvörðun um vinnustöðvun til sáttasemjara og þeim sem hún beinist aðallega gegn sjö sólarhringum áður en tilætlunin er að hún hefjist.

Elísabet S. Ólafsdóttir aðstoðarríkissáttasemjari hefur staðfest í samtali við mbl.is og Vísi að verkfallsboðunin hafi ekki borist skrifstofu ríkissáttasemjara.

Umræddar verkfallsboðanir, sem voru samþykktar voru af félagsmönnum Eflingar í byrjun vikunnar, ná m.a. til hótelkeðjanna Centerhotels og Keahótels, Securitas og Öryggismiðstöðvar Íslands auk ræstingafyrirtækja á borð við Sólar og Daga. Tæplega tvö þúsund manns voru á kjörskrá í atkvæðagreiðslunni sem lauk á mánudaginn.