Stjórnvöld í Sádi Arabía hefur hafnað fréttum um að þeir eigi í viðræðum við önnur OPEC+ ríki um að auka olíuframleiðslu og segjast vera reiðubúin að draga enn frekar úr framleiðslu ef þess krefst. Bloomberg greinir frá.

Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá fyrr í dag þá hafði olíuverð lækkað um 5% eftir að Wall Street Journal greindi frá því að OPEC+ ríkin ættu í viðræðum um að auka framleiðslu um allt að 500 þúsund tunnur á dag. Verð á tunnu af Brent hráolíu fór niður í 82,79 dali þegar mest lét og náði þar með sínu lægsta gengi frá því í janúar síðastliðnum.

Fregnirnar komu markaðnum í opna skjöldu þar sem OPEC+ ríkin komust að samkomulagi í byrjun október að draga úr framleiðslu um 2 milljónir tunna á dag. Orkumálaráðherra Sádi Arabíu, prinsinn Abdulaziz bin Salman, gerði þó vonir um aukna framleiðslu að engu með yfirlýsingu sem hann birti í Saudi Press Agency.

„Núverandi niðurskurður um 2 milljónir tunna á dag hjá OPEC+ mun halda áfram til loka árs 2023.“ Hann bætti við að OPEC+ ríkin væru reiðubúin að draga enn frekar úr framleiðslu.

Verð á tunnu af Brent hráolíu er komið aftur á sömu slóðir og fyrir hasaganginn í dag. Verðið stendur nú í 87,4 dölum.