Krónaprins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Salman, hefur lýst yfir áformum um að fjárfesta að minnsta kosti 600 milljörðum Bandaríkjadala í Bandaríkjunum á næstu fjórum árum.
Samsvarar það rúmlega 84,2 þúsund milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá opinberri fréttastofu Sádi-Arabíu (SPA) eftir símtal krónprinsins við Donald Trump en Financial Times greinir frá.
Trump hefur sjálfur lagt áherslu á að dýpka viðskiptasambönd milli ríkjanna, meðal annars með því að binda hugsanlega fyrstu opinberu heimsókn sína á nýjum forsetaferli við Sádi-Arabíu, líkt og hann gerði árið 2017.
Í fyrri forsetatíð Trump náðust risasamningar við Sádi-Arabíu, þar sem konungsríkið samþykkti að kaupa bandarískar vörur fyrir 450 milljarða dala.
Meðal annarra málefna sem Mohammed bin Salman, Trump og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Marco Rubio, ræddu var stöðugleiki í Mið-Austurlöndum, framtíð Gaza, Líbanon og Sýrlands, og möguleg sátt Sádi-Arabíu við Ísrael.
Trump lagði áherslu á að hann vonaðist til þess að ríkið myndi taka þátt í Abraham-samkomulaginu, sem hafði það markmið að byggja brú milli Ísraels og fleiri arabaþjóða.
Fjárfestingaráformin hafa vakið athygli þar sem þau fela í sér stóraukinn stuðning við efnahag Bandaríkjanna, með áherslu á atvinnuskapandi verkefni í ýmsum greinum.
Ekki hafa verið gefnar út nákvæmar upplýsingar um hvaða atvinnugreinar muni fá fjárfestingarnar, en samkvæmt yfirlýsingu krónprinsins gæti fjárfestingin farið yfir uppgefnar 600 milljarða ef fleiri tækifæri myndast.
Tengsl Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu hafa verið til skoðunar vegna fjárhagslegra tengsla sem ríkið á við Jared Kushner, tengdason Trump, og Steven Mnuchin, fyrrverandi fjármálaráðherra.
Auk þess hafa nýlegir samningar við Trump Organization, þar sem vörumerki forsetans hefur verið nýtt í fasteignaþróun í Sádi-Arabíu og á fleiri stöðum í Persaflóa, vakið upp spurningar um áhrif þessara viðskiptasambanda á stefnumörkun ríkjanna.
Trump á að hafa sagt í símtalinu að hann væri viss um að sáttmálarnir myndu stuðla að „óþrjótandi efnahagslegri velmegun og tækifærum,“ en framhald þeirra mun ráðast af þróun samskipta ríkjanna á næstu misserum.