Króna­prins Sádi-Arabíu, Mohammed bin Sal­man, hefur lýst yfir áformum um að fjár­festa að minnsta kosti 600 milljörðum Bandaríkja­dala í Bandaríkjunum á næstu fjórum árum.

Sam­svarar það rúm­lega 84,2 þúsund milljörðum ís­lenskra króna á gengi dagsins.

Þetta kemur fram í til­kynningu frá opin­berri frétta­stofu Sádi-Arabíu (SPA) eftir sím­tal krón­prinsins við Donald Trump en Financial Times greinir frá.

Trump hefur sjálfur lagt áherslu á að dýpka við­skipta­sam­bönd milli ríkjanna, meðal annars með því að binda hugsan­lega fyrstu opin­beru heimsókn sína á nýjum for­seta­ferli við Sádi-Arabíu, líkt og hann gerði árið 2017.

Í fyrri for­setatíð Trump náðust risa­samningar við Sádi-Arabíu, þar sem konungs­ríkið samþykkti að kaupa bandarískar vörur fyrir 450 milljarða dala.

Meðal annarra mál­efna sem Mohammed bin Sal­man, Trump og utan­ríkis­ráðherra Bandaríkjanna, Marco Ru­bio, ræddu var stöðug­leiki í Mið-Austur­löndum, framtíð Gaza, Líbanon og Sýr­lands, og mögu­leg sátt Sádi-Arabíu við Ís­rael.

Trump lagði áherslu á að hann vonaðist til þess að ríkið myndi taka þátt í Abra­ham-sam­komu­laginu, sem hafði það mark­mið að byggja brú milli Ís­raels og fleiri arabaþjóða.

Fjár­festingará­formin hafa vakið at­hygli þar sem þau fela í sér stóraukinn stuðning við efna­hag Bandaríkjanna, með áherslu á at­vinnu­skapandi verk­efni í ýmsum greinum.

Ekki hafa verið gefnar út nákvæmar upp­lýsingar um hvaða at­vinnu­greinar muni fá fjár­festingarnar, en sam­kvæmt yfir­lýsingu krón­prinsins gæti fjár­festingin farið yfir upp­gefnar 600 milljarða ef fleiri tækifæri myndast.

Tengsl Bandaríkjanna og Sádi-Arabíu hafa verið til skoðunar vegna fjár­hags­legra tengsla sem ríkið á við Jar­ed Kus­hner, tengda­son Trump, og Ste­ven Mnuchin, fyrr­verandi fjár­málaráðherra.

Auk þess hafa ný­legir samningar við Trump Organization, þar sem vöru­merki for­setans hefur verið nýtt í fast­eignaþróun í Sádi-Arabíu og á fleiri stöðum í Persaflóa, vakið upp spurningar um áhrif þessara við­skipta­sam­banda á stefnumörkun ríkjanna.

Trump á að hafa sagt í símtalinu að hann væri viss um að sátt­málarnir myndu stuðla að „óþrjótandi efna­hags­legri vel­megun og tækifærum,“ en fram­hald þeirra mun ráðast af þróun sam­skipta ríkjanna á næstu misserum.