Þjóðarsjóður Sádí-Arabíu hyggst panta 30 Boeing 737 Max-þotur frá bandaríska flugvélaframleiðandanum á meðan heimsókn Donalds Trumps í Mið-Austurlöndunum stendur yfir í þessari viku.
Á vef Bloomberg segir að flugvélarnar séu ætlaðar flugvélaleigufyrirtækinu AviLease en hvorki það félag né Boeing hafa viljað tjá sig um málið.
Búist er við því að nokkur af stærstu flugfélögum Mið-Austurlanda muni einnig tilkynna samninga á meðan Trump er á svæðinu. Trump mun svo halda til Katar síðar í vikunni þar sem Qatar Airways mun að líkindum leggja inn stóra pöntun.
Kelly Ortberg, forstjóri Boeing, mun einnig ferðast með forsetanum um Mið-Austurlöndin en bandarísk fyrirtæki vonast eftir því að heimsóknin muni skila viðskiptatækifærum í gegnum pólitískt samstarf.