Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur Ís­lands­banka, segir lík­legt að hækkun á heims­markaðs­verði á olíu muni hafa á­hrif á verð­bólguna hér­lendis en ó­vissa er um hversu mikil á­hrifin verða.

Árs­verð­bólga í Banda­ríkjunum hækkaði úr 3,2 í 3,7% á milli mánaða og spilaði hækkun á orku- og elds­neyti þar stóran þátt. Evrópski seðla­bankinn, sem hækkaði megin­vexti sína í dag, upp­færði einnig verð­bólgu­spá næsta árs úr 3% í 3,2% vegna hækkandi elds­neytis­kostnaðar.

Heims­markaðs­verð á olíu hefur rokið upp í sumar eftir að Sádi-Arabía, Rúss­land og önnur OPEC+ ríki á­kváðu að draga úr fram­leiðslu.

„Ég held að það sé lík­legt að þau á­hrif séu að fara koma fram. Þessi hækkun er orðin það myndar­leg, til dæmis ef við horfum á Brent tunnuna sem er hrá­efni fyrir mikið af þessu unna elds­neyti og aðal­við­miðunar­verð. Frá miðju ári hefur verðið á henni hækkað úr 72 dollurum í 92 dollara, það er um fjórðungs­hækkun,“ segir Jón Bjarki spurður um á­hrif verð­hækkana á olíu á verð­bólguna hér­lendis.

Verðið á Brent hrá­olíu hefur hækkað um 17% á árinu og hélt á­fram að hækka í dag.

Hækkunin hefur nú þegar haft slæm áhrif á íslensku flug­fé­lögin en Play hefur dregið spá um rekstrar­hagnað (EBIT) á árinu 2023 til baka, einkum vegna hækkandi elds­neytis­verðs. Í gær­kvöldi færði Icelandair síðan af­komu­spá sína niður af sömu á­stæðum.

Hefur fjölþætt áhrif á verð­mælingu Hag­stofunnar

Jón Bjarki segir að í tölunum sem hag­stofa Banda­ríkjanna birti í gær sjáist á­kveðinn við­snúningur í elds­neytis­verðinu og á­hrif þess á verð­bólgu­taktinn.

„Við erum auð­vitað ekki undan­skilin því. Sem betur fer höfum við ekki enn orðið mikið var við það en það er hætt við að það komi fram í meiri mæli. Fyrst að þessi leitni virðist vera á­fram svona sterk eða hefur verið það síðustu vikur.“

„Elds­neyti kemur með ýmsum hætti inn í verð­mælingu Hag­stofunnar. Verðið á dælunni er eitt en síðan kemur þetta inn í verð á þjónustu. t.d. í formi flug­far­gjalda og síðan á endanum hefur það á­hrif á allt inn­flutnings­verð­lag því það eykur kostnað við að flytja vörur til landsins,“ segir Jón Bjarki.

„Lík­lega ekki að fara hjálpa á komandi mánuðum“

Spurður um hvort við sjáum að fara sjá bak­slag í bar­áttunni við verð­bólguna hér­lendis ef Sádarnir halda á­fram að draga úr fram­leiðslu, segir Jón Bjarki mikil­vægt að horfa á aðra þætti líka.

„Það gæti unnið á móti öðrum þáttum sem eru sem betur fer að hafa á­hrif til hjöðnunar. Annað inn­flutnings­verð­lag hefur verið stöðugra og sumar vörur að lækka. Auð­vitað er í­búða­markaðurinn líka byrjaður að hafa teljandi á­hrif á verð­bólgu­taktinn en þetta er lík­lega ekki að fara hjálpa á komandi mánuðum.“

„Hversu þungt það vegur gegn öðrum þáttum sem halda á­fram að vega til lækkunar það á eftir að koma í ljós,“ segir Jón Bjarki en þar skiptir mestu máli hvort hækkunin á olíu­verð haldi á­fram eða hvort verðið finnur stöðug­leika.

Þegar Sádarnir á­kváðu að byrja skerða olíu­fram­leiðslu í maí tók heims­markaðs­verð á olíu lítið við sér.

Sam­kvæmt The Wall Street Journal höfðu fjár­festar á olíu­markaði meiri á­hyggjur af getu fólks og fyrir­tækja til að greiða fyrir hátt olíu­verð en af samdrætti í framleiðslu.

Þegar leið á sumarið byrjaði olíu­verð hins vegar að hækka dag frá degi.

„Það er líka hluti af þessu, þetta er auð­vitað ekki bara fram­boðs­hliðin sem er á bak við þessa verð­hækkun. Eftir­spurnar­hliðin í heiminum hefur reynst sterkari. Vestur­lönd hafa meira og minna sloppið við sam­drátt hingað til. Kaup­máttur er svona heldur að taka við sér sums staðar og hættur að hjaðna annars staðar.“

„Það er líka að hjálpa til og það vita þessir aðilar, Sádar og Rússar, þeir eru alltaf að reyna leika þann leik að halda eða jafn­vel auka heildar­tekjur þrátt fyrir minna út­flutt magn og það gengur náttúru­lega ekki nema verð­hækkunin vegi upp minna út­flutt magn annars eru þeir að fá minni heildar­tekjur í kassann,“ segir Jón Bjarki að lokum.