Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, segir líklegt að hækkun á heimsmarkaðsverði á olíu muni hafa áhrif á verðbólguna hérlendis en óvissa er um hversu mikil áhrifin verða.
Ársverðbólga í Bandaríkjunum hækkaði úr 3,2 í 3,7% á milli mánaða og spilaði hækkun á orku- og eldsneyti þar stóran þátt. Evrópski seðlabankinn, sem hækkaði meginvexti sína í dag, uppfærði einnig verðbólguspá næsta árs úr 3% í 3,2% vegna hækkandi eldsneytiskostnaðar.
Heimsmarkaðsverð á olíu hefur rokið upp í sumar eftir að Sádi-Arabía, Rússland og önnur OPEC+ ríki ákváðu að draga úr framleiðslu.
„Ég held að það sé líklegt að þau áhrif séu að fara koma fram. Þessi hækkun er orðin það myndarleg, til dæmis ef við horfum á Brent tunnuna sem er hráefni fyrir mikið af þessu unna eldsneyti og aðalviðmiðunarverð. Frá miðju ári hefur verðið á henni hækkað úr 72 dollurum í 92 dollara, það er um fjórðungshækkun,“ segir Jón Bjarki spurður um áhrif verðhækkana á olíu á verðbólguna hérlendis.
Verðið á Brent hráolíu hefur hækkað um 17% á árinu og hélt áfram að hækka í dag.
Hækkunin hefur nú þegar haft slæm áhrif á íslensku flugfélögin en Play hefur dregið spá um rekstrarhagnað (EBIT) á árinu 2023 til baka, einkum vegna hækkandi eldsneytisverðs. Í gærkvöldi færði Icelandair síðan afkomuspá sína niður af sömu ástæðum.
Hefur fjölþætt áhrif á verðmælingu Hagstofunnar
Jón Bjarki segir að í tölunum sem hagstofa Bandaríkjanna birti í gær sjáist ákveðinn viðsnúningur í eldsneytisverðinu og áhrif þess á verðbólgutaktinn.
„Við erum auðvitað ekki undanskilin því. Sem betur fer höfum við ekki enn orðið mikið var við það en það er hætt við að það komi fram í meiri mæli. Fyrst að þessi leitni virðist vera áfram svona sterk eða hefur verið það síðustu vikur.“
„Eldsneyti kemur með ýmsum hætti inn í verðmælingu Hagstofunnar. Verðið á dælunni er eitt en síðan kemur þetta inn í verð á þjónustu. t.d. í formi flugfargjalda og síðan á endanum hefur það áhrif á allt innflutningsverðlag því það eykur kostnað við að flytja vörur til landsins,“ segir Jón Bjarki.
„Líklega ekki að fara hjálpa á komandi mánuðum“
Spurður um hvort við sjáum að fara sjá bakslag í baráttunni við verðbólguna hérlendis ef Sádarnir halda áfram að draga úr framleiðslu, segir Jón Bjarki mikilvægt að horfa á aðra þætti líka.
„Það gæti unnið á móti öðrum þáttum sem eru sem betur fer að hafa áhrif til hjöðnunar. Annað innflutningsverðlag hefur verið stöðugra og sumar vörur að lækka. Auðvitað er íbúðamarkaðurinn líka byrjaður að hafa teljandi áhrif á verðbólgutaktinn en þetta er líklega ekki að fara hjálpa á komandi mánuðum.“
„Hversu þungt það vegur gegn öðrum þáttum sem halda áfram að vega til lækkunar það á eftir að koma í ljós,“ segir Jón Bjarki en þar skiptir mestu máli hvort hækkunin á olíuverð haldi áfram eða hvort verðið finnur stöðugleika.
Þegar Sádarnir ákváðu að byrja skerða olíuframleiðslu í maí tók heimsmarkaðsverð á olíu lítið við sér.
Samkvæmt The Wall Street Journal höfðu fjárfestar á olíumarkaði meiri áhyggjur af getu fólks og fyrirtækja til að greiða fyrir hátt olíuverð en af samdrætti í framleiðslu.
Þegar leið á sumarið byrjaði olíuverð hins vegar að hækka dag frá degi.
„Það er líka hluti af þessu, þetta er auðvitað ekki bara framboðshliðin sem er á bak við þessa verðhækkun. Eftirspurnarhliðin í heiminum hefur reynst sterkari. Vesturlönd hafa meira og minna sloppið við samdrátt hingað til. Kaupmáttur er svona heldur að taka við sér sums staðar og hættur að hjaðna annars staðar.“
„Það er líka að hjálpa til og það vita þessir aðilar, Sádar og Rússar, þeir eru alltaf að reyna leika þann leik að halda eða jafnvel auka heildartekjur þrátt fyrir minna útflutt magn og það gengur náttúrulega ekki nema verðhækkunin vegi upp minna útflutt magn annars eru þeir að fá minni heildartekjur í kassann,“ segir Jón Bjarki að lokum.