Sádi-Arabía hefur gefið vestrænum bandamönnum sínum til kynna að ríkið sé reiðubúið að auka olíuframleiðslu skyldi framleiðsla Rússlands minnka umtalsvert vegna refsiaðgerða.

Sádi-Arabía hefur hingað til ekki brugðist við ákalli Bandaríkjanna um að auka við framleiðslu þrátt fyrir að olíuverð sé orðið það hæsta í áratug. Bendir konungsríkið á það að enn geti staðan versnað og að ekki sé tímabært að ganga á varaframleiðslugetu.

„Þótt staðan á olíumarkaði sé vissulega þröng þá er enn ekki raunverulegur skortur á olíu.“ segir heimildarmaður Financial Times. „Sádi-Arabía er meðvituð um áhættuna sem felst í því að olíuverð verði stjórnlaust.“,

Evrópusambandið hefur hafið aðra lotu refsiaðgerða gegn Rússum, þar á meðal bann við innflutningi á rússneskri olíu sjóleiðis inn í sambandið.

Því til viðbótar hafa ESB og Bretland gert með sér samning um tryggingabann skipa sem flytja rússneska olíu, sá samningur er talinn líklegur til að draga verulega úr getu Rússlands til að selja olíu til annarra markaða.