Íslenska nýsköpunarfyrirtækið Circular Library Network ehf., sem vinnur að því að einfalda uppsetningu sameiginlegra auðlindastöðva fyrir fyrirtæki, sveitarfélög og samfélög, hefur tryggt sér 45 milljóna króna fjármögnun í sini fyrstu pre-seed fjármögnunarlotu.
„Fjármagnið verður nýtt til að hraða þróun lausnarinnar, styðja við markaðssókn og mæta vaxandi eftirspurn,“ segir í tilkynningu sprotafyrirtækisins.
Fjármögnunarlotunni var stýrt af belgíska áhrifasjóðnum Impact Shakers, með þátttöku frá Fundforward, bandaríska samfélagsfyrirtækinu myTurn.com, PBC, og hópi englafjárfesta.
Meðal íslenskra fjárfesta eru Þór Sigfússon PhD, stofnandi Sjávarklasans, Jói Sigurðsson, stofnandi Crankwheel, og Svava Björk Ólafsdóttir, frumkvöðull og ráðgjafi. Þau tóku þátt ásamt englafjárfestum með aðsetur í Bretlandi.
Samhliða fjármögnuninni tekur Daníels Haltía, sem ber starfstitilinn „Associate Director, Global Circular Strategy“ hjá IKEA, við sem stjórnarformaður. Sprotafyrirtækið segir Haltia búa yfir djúpstæðri þekkingu á hringrásarhugsun en hann mun leiða stefnumótun fyrirtækisins á næstu vexti og markaðssókn.
„Heimurinn er tilbúinn fyrir framtíð þar sem deiling er ekki bara góð hugmynd – heldur raunhæfur og skalanlegur valkostur með réttu innviðunum,“ segir Anna C W de Matos, stofnandi og framkvæmdastjóri Circular Library Network.
Mikill áhugi á Norðurlöndunum og í Þýskalandi
Circular Library Network hefur það að markmiði að gera það eins einfalt og mögulegt er að koma upp deilistöðvum, svo ekki þurfi að endurhugsa hjólið í hvert sinn sem samfélög eða fyrirtæki vilja draga úr sóun og auka aðgengi.
Circular Library Network hóf forsölu í desember síðastliðnum og hefur nú þegar selt 25% af þeim lausnum sem verða í boði árið 2025, að því er segir í tilkynningunni.
„Vöxturinn hefur verið hraður, sérstaklega á Norðurlöndum og í Norður-Evrópu – með miklum áhuga frá þýska markaðnum.“