Sparisjóðurinn Indó sótti sér milljarð króna með hlutafjáraukningu í desember síðastliðnum til að fjármagna næsta legg í innreið sinni á íslenskan fjármálamarkað, yfirdráttarlán. Fjallað er um málið í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.

Fjármagnið fer að stærstum hluta í að uppfylla eiginfjárkröfur fyrir slíka starfsemi en einnig verður nokkrum stöðugildum bætt við starfsemina – sem í dag telur 20 manns – og þróun fleiri vara haldið áfram samhliða.

„Það að gefa yfirdrætti bara lausan tauminn með því að láta hann endurnýjast sjálfkrafa hjá fólki og helst láta fólk ekki vita af því til að hámarka vaxtatekjurnar, það finnst okkur til dæmis vera bull.“

„Holdgervingur þess hvernig við hugsum hlutina öðruvísi“

Eins og áður sagði verða útlánin í formi yfirdráttar fyrst um sinn, en um svipað leyti verður svo önnur útlánategund afhjúpuð sem stofnendurnir, Haukur Skúlason og Tryggvi Björn Davíðsson, vilja lítið tjá sig nánar um að svo stöddu, í það minnsta efnislega.

„Hún er hugsuð sem holdgervingur þess hvernig við hugsum hlutina allt öðruvísi; til að undirstrika að þó að við séum að fara í útlán þá erum við ekki að færast inn í þetta mót sem stóru bankarnir eru steyptir í,“ segir Haukur spenntur.

Aðferðafræðin sé sú að koma auga á „bullið“ í ferlinu eins og það er sett upp innan hins hefðbundna bankakerfis og bjóða lausn sem er laus við það.

„Það er ekkert endilega alltaf verðlagning, það getur líka verið bara upplifun, eins og það að gefa yfirdrætti bara lausan tauminn með því að láta hann endurnýjast sjálfkrafa hjá fólki og helst láta fólk ekki vita af því til að hámarka vaxtatekjurnar, það finnst okkur til dæmis vera bull,“ segir Haukur.

„Að taka lán fyrir ófyrirséðum tilfallandi útgjöldum á að vera tímabundið,“ bætir Tryggvi við.

Nánar er rætt við Tryggva og Hauk í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.