Sænski rafhlöðuframleiðandinn Northvolt er orðinn gjaldþrota en samkvæmt WSJ náði félagið ekki að tryggja sér nægt fjármagn til að halda rekstrinum gangandi.

Skiptastjóri í Svíþjóð mun hafa umsjón með gjaldþrotaferlinu, þar á meðal sölu fyrirtækisins og eigum þess ásamt uppgjöri skulda.

Northvolt sótti um greiðslustöðvun síðastliðinn nóvember og steig þáverandi forstjóri og meðstofnandi, Peter Carlsson, til hliðar. Greint var frá því í febrúar að Matti Kataja, talsmaður fyrirtækisins, hefði mikla trú á framtíð félagsins og að vonir væru bundnar við að fyrirtækið kæmist úr greiðslustöðvun á fyrsta ársfjórðungi þessa árs

Þá hafi félagið farið í gegnum umfangsmikið endurskipulagningarferli en skuldastaða þess, fjármögnunarskortur og aukin samkeppni frá Kína hafi bætt gráu ofan á svart.

„Þetta er eina tiltæka lausnin á meðan fyrirtækið leitar allra raunhæfra kosta til að tryggja sér fjármögnun til að halda áfram rekstri meðan á gjaldþrotaferli stendur,“ segir í yfirlýsingu frá Northvolt.

Fyrirtækið var stofnað árið 2016 af fyrrum framkvæmdastjórum hjá Tesla en undir lok 2023 nam fjárfesting í fyrirtækinu 15 milljörðum dala. Meðal stærstu hluthafa voru Volkswagen og Goldman Sachs.