Fimm bandarísk flugfélög rukkuðu samtals 12,4 milljarða dala í gjöld frá viðskiptavinum sem vildu fá að velja sér sæti eða sitja í sætaröð sem bauð upp á meira fótarými. Þetta kemur fram í skýrslu frá bandarísku öldungadeildinni sem WSJ greinir frá.

Gjöldin voru innheimt á árunum 2018 til 2023 en stærsta tekjulind flugfélaganna í formi gjalda var fyrir innritaðar töskur, en þau gjöld skiluðu flugfélögunum 25 milljörðum dala.

Hin umræddu flugfélög eru United Airlines, Delta, American Airlines, Spirit Airlines og Frontier Airlines. Skýrslan segir að þau séu öll mun duglegri í að þrengja að viðskiptavinum og þess í stað bjóða upp á sífellt fleiri valkosti sem þurfi að greiða fyrir.

Skýrslan gagnrýnir jafnframt starfshætti flugfélaganna og segir að fjölgun þessara gjalda hafi flækt miðakaupin og stuðlað að ógagnsæi.

Flugfélögin neita því hins vegar og segja að þau séu að veita farþegum fleiri valkosti. Airlines for America, fulltrúi stærstu bandarísku flugfélaganna, bendir til að mynda á að miðaverð, jafnvel með inniföldum gjöldum, hafi aldrei verið lægra.