Icelandair flutti 264 þúsund farþega í janúar 2025, 17% fleiri en á sama tíma í fyrra en flugframboð jókst um 8%.
Sætanýting Icelandair hefur aldrei verið betri í janúarmánuði eða 77% og jókst um 8 prósentustig á milli ára, að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Stundvísi nam 77,6%.
Af þeim 264 þúsund farþegum sem félagið flutti voru 29% farþega á leið til Íslands, 19% frá Íslandi, 45% ferðuðust um Ísland og 7% innan Íslands.
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141158.width-1160.png)
„Í janúar héldum við áfram að sjá jákvæða þróun í fjölda farþega til Íslands. Á sama tíma var mikil eftirspurn eftir flugi frá Íslandi og á Atlantshafsmarkaðnum sem endurspeglaðist í met sætanýtingu í mánuðinum. Þá gekk innanlandsflugið áfram vel,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair.
„Þá héldum við áfram að stækka leiðakerfið okkar og í síðustu viku tilkynntum við Miami sem okkar 19. áfangastað í Norður-Ameríku. Árið 2025 verður stærsta árið í sögu Icelandair þar sem við munum bjóða viðskiptavinum okkar upp á fleiri ferðamöguleika en nokkru sinni fyrr.“
Einingatekjur hækka milli ára
Icelandair hefur ákveðið bæta við upplýsingum um þróun tekna á hvern seldan sætiskílómetra (e. yield) í umfjöllun um mánaðarlegar flutningatölur félagsins.
„Þessi mælikvarði, ásamt þróun sætanýtingar, gefur vísbendingu um tekjumyndun í leiðakerfi félagsins, en segir þó ekki til um þróun heildartekna, þar sem meðal annars er ekki tekið tillit til tekna af fluttri frakt og ákveðinna hliðartekna (e. ancillary revenue).“
Tekjur á hvern seldan sætiskílómetra námu 8,1 bandarísku senti og lækkuðu um 3% samanborið við janúar á síðasta ári. Félagið segir lækkunin að mestu leyti vera vegna hærra hlutfalls farþega sem ferðuðust um Ísland (e. via passengers) en á sama tíma í fyrra.
„Bætt sætanýting vó hins vegar upp á móti þessari lækkun og skilaði sér í hækkun einingatekna á milli ára.“
![](http://vb.overcastcdn.com/images/141159.width-1160.png)
Seldir blokktímar í leiguflugi voru 96% fleiri en í janúar í fyrra, þar sem fjöldi flugvéla í rekstri og nýting þeirra jókst á milli ára. Fraktflutningar jukust um 1% miðað við sama mánuð í fyrra.