Farþegar Icelandair í millilandaflugi voru 10 sinnum fleiri á fyrstu sex mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra eða næstum 1,3 milljónir. Heildarfjöldi farþega í júní var 431 þúsund samanborið við 94 þúsund í júní 2021 og 316 þúsund í maí 2022. Heildarframboð í júní hafi verið um 77% af framboði sama mánaðar árið 2019. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í mánaðarlegum flutningatölum sem birtar voru í Kauphöll rétt í þessu.
Farþegar í millilandaflugi voru 407 þúsund. Þar af voru farþegar til Íslands 176 þúsund og frá Íslandi 57 þúsund. Tengifarþegar voru 174 þúsund eða um 43% millilandafarþega. Sætanýting í millilandaflugi var 83,2% samanborið við 53,6% í júní 2021.
„Stundvísi var 67% en talsverðar raskanir í leiðakerfinu í júní höfðu neikvæð áhrif á stundvísi félagsins. Þetta skýrist aðallega af krefjandi aðstæðum á flugvöllum víða erlendis og töfum í viðhaldi flugvéla vegna truflunar í aðföngum eftir faraldurinn.“
Flugfélagið segir að innanlandsflugið hafi náð sér vel á strik eftir faraldurinn „þrátt fyrir að tafir í viðhaldi flugvéla hafi einnig valdið röskunum í innanlandsflugi í júní“.
Farþegar í innanlandsflugi voru 25 þúsund samanborið við 22 þúsund í júní 2021. Sætanýting í innanlandsflugi var 74,3%, samanborið við 72,7% á sama tíma í fyrra.
Seldir blokktímar í leiguflugi voru jafnmargir og á sama tíma 2021. Fraktflutningar voru 7% minni í júní en á sama tíma í fyrra en jukust um 2% á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair:
„Við erum með metnaðarfulla flugáætlun í sumar, mikla tíðni á okkar vinsælustu staði og fjölbreytta brottfarartíma innan dagsins til að mæta mikilli eftirspurn eftir flugi nú í sumar. Eins og sjá má hefur fjöldi farþega tífaldast á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra.
Við höfum gripið til ýmissa aðgerða til að bregðast við krefjandi aðstæðum í rekstrarumhverfinu, bæði vegna aðstæðna á flugvöllum erlendis og vegna áskorana í aðfangakeðjum. Það er forgangsmál hjá okkur að lágmarka áhrif á farþega eins og mögulegt er með ýmsum ráðstöfunum og bættri upplýsingagjöf, bæði í millilandafluginu og innanlands. Sumarið fer mjög vel af stað og við höldum áfram að bæta í. Við hefjum til að mynda flug á tvo nýja og spennandi áfangastaði í dag, Nice og Róm en þessum stöðum hefur verið mjög vel tekið.“