Flugfélagið PLAY flutti 87.415 farþega í janúar, samanborið við 99.704 farþega í janúar í fyrra.
„Þetta endurspeglar 11% mun á framboði á milli ára sem er bein afleiðing af ákvörðun PLAY að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðarbundnum sveiflum,“ segir í tilkynningu flugfélagsins.
Sætanýting PLAY í janúar var 72,9%, samanborið við 74,8% í janúar í fyrra. PLAY hefur lagt aukna áherslu á aukið framboð til sólarlandaáfangastaða í Suður-Evrópu. Hlutur sólarlandaáfangastaða í leiðakerfi PLAY jókst um 5 prósentustig, úr 21% í 26%, á milli ára í janúar.
Sólarlandaáfangastaðirnir gefa af sér betri afkomu, en þar sem um er að ræða beint flug frá Íslandi þar sem tengifarþegar eru ekki fyrir hendi, kemur það jafnan niður á sætanýtingu.
Í tilkynningu segir að þessi breyting hafi haft jákvæð áhirf á einingatekjur félagsins, sem jukust á milli ára.
„Janúar var fimmti mánuðurinn í röð þar sem vöxtur hefur orðið á einingatekjum á milli ára og líkt og áður hefur komið fram eru horfur á að sú þróun haldi áfram árið 2025,“ segir í tilkynningunni.
Fleiri Íslendingar ferðast með PLAY
Af þeim farþegum sem flugu með PLAY í janúar voru 32,2% á leið frá Íslandi, 37,6% voru á leið til Íslands og 30,1% voru tengifarþegar (VIA).
Þrátt fyrir minna framboð varð aukning á milli ára á farþegum sem voru á leið frá Íslandi, úr 27 þúsund í janúar í fyrra í 28 þúsund í janúar í ár.
Sömu sögu er að segja af ferðamönnum sem flugu með PLAY til að heimsækja Ísland, en tala þeirra fór úr 31 þúsund í janúar í fyrra í 33 þúsund í janúar í ár.
79,2% stundvísi í janúar
Stundvísi PLAY í janúar var 79,2%, samanborið við 78,1% í janúar í fyrra.
Einar Örn Ólafsson, forstjóri PLAY, segist í tilkynningunni stoltur af samstarfsfólki sínu að ná að bæta stundvísina á milli ára í janúar.
„Þessir vetrarmánuðir geta verið ansi krefjandi í flugrekstri hér á landi, en hjá PLAY starfar fólk sem er staðráðið í að halda góðri stundvísi og forgangsraðar ávallt öryggi sem skilar sér í ánægju farþega og lægri kostnaði.
Við höldum áfram á þeirri vegferð að bjóða frábæra þjónustu á góðu verði, sem gerir PLAY að frábærum valkosti fyrir þá sem vilja komast til sólarlanda, heimsækja Ísland eða fljúga á milli Bandaríkjanna og Evrópu,“ segir Einar Örn.