Flugfélagið Play flutti 86.893 farþega í febrúar 2025, samanborið við 106.042 farþega í febrúar í fyrra, sem endurspeglar 13,8% minna framboð á milli ára.
Í tilkynningu Play til Kauphallarinnar kemur fram að minna framboð sé bein afleiðing af ákvörðun félagsins að leigja eina af farþegaþotum sínum til GlobalX í Miami og aðlaga framboðið eftir árstíðarbundnum sveiflum.
Einingatekjur Play jukust á milli ára, sjötta mánuðinn í röð. Horfur séu á að sú þróun haldi áfram á árinu.
Sætanýting Play í liðnum febrúar var 75,8%, samanborið við 81,0% í febrúar í fyrra. Play hefur lagt aukna áherslu á aukið framboð til sólarlandaáfangastaða í Suður-Evrópu, sem endurspeglast í sætanýtingu febrúar, að því er kemur fram í tilkynningunni.
„Sólarlandaáfangastaðir gefa af sér betri afkomu en þar sem um er að ræða beint flug frá Íslandi þar sem tengifarþegar eru ekki fyrir hendi, kemur það jafnan niður á sætanýtingu.“
Einar Örn Ólafsson, forstjóri Play, segir vöxt einingatekna beina afleiðingu af ákvörðun félagsins að leggja aukna áherslu á sólarlandaáfangastaði.
„Þetta er staðfesting á því að ákvörðun okkar um að breyta viðskiptalíkani félagsins hefur gefið góða raun og við erum viss um að þessi jákvæði viðsnúningur sem fylgir breytingunum haldi áfram.“
Play hefur þá greint frá því að samkomulag sé í höfn um leigu þriggja véla frá og með næstkomandi vori til ársloka 2027.
„Verkefnið mun skila Play arðsemi í samræmi við það sem félagið hefur áður gefið til kynna og færir félaginu afar stöðugan og jákvæðan rekstur af þessum hluta starfseminnar,“ bætir Einar Örn við í tilkynningu flugfélagsins.